131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Kostun dagskrárliða í útvarpi og sjónvarpi.

515. mál
[14:03]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, spyr þriggja spurninga:

„Á hvern hátt fylgja stjórnvöld því eftir að útvarps- og sjónvarpsstöðvar fari að kostunarreglum 21. gr. útvarpslaga?“

Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. útvarpslaga hefur útvarpsréttarnefnd m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal eftirlit með öllum útvarpssendingum er lúta íslenskri lögsögu. Eins og fram kemur í fyrirspurn hv. þingmanns hefur 21. gr. útvarpslaga að geyma ákvæði um m.a. kostun. Útvarpsréttarnefnd sem ég skipaði 1. október í fyrra hefur upplýst mig um að til að annast framangreint eftirlit hefur hún í undirbúningi að láta framkvæma sérstaka könnun á því hvernig upplýsingum, fjarsölu og kostun helstu sjónvarpsstöðvanna sem starfa með leyfi nefndarinnar er háttað. Verið er að kynna fyrir forsvarsmönnum sjónvarpsstöðvanna hvernig ætlunin er að standa að þessari könnun en útvarpsréttarnefnd leggur áherslu á gott samstarf og samvinnu við leyfishafa án þess þó að það komi niður á því nauðsynlega eftirliti sem nefndinni er ætlað að hafa með höndum samkvæmt útvarpslögum. Miðað er við að niðurstaða umræddrar könnunar geti legið fyrir á vormánuðum.

„Hversu stór hluti auglýsingatekna Ríkisútvarpsins fæst með kostun og hvernig hefur hlutfallið þróast á sl. 10 árum?“

Auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins voru á síðasta ári um 23,3% af heildartekjum þess og er í raun sama hlutfall og var árið 1994 en á tímabilinu komust þær hæst í 29,5% á árinu 2000. Á árinu 1994 var hlutfall kostunar af auglýsingatekjum 4,8% en var 11,4% á síðasta ári þannig að ljóst er að stærri hluti auglýsingatekna Ríkisútvarpsins fæst núna með kostunarsamningum en áður. Ef tekið er tillit til heildartekna Ríkisútvarpsins sést að kostun var 1,2% af þeim árið 1994 en 3,5% í fyrra. Hefur aukningin verið nokkuð jöfn á þessu 10 ára tímabili. Í krónum talið voru tekjur af kostun tæplega 33 millj. kr. árið 1994 en voru 118,5 millj. kr. í fyrra og er þá reiknað út frá verðlagi sl. árs.

„Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða reglur um kostun?“

Því er til að svara að að mínu mati og í ljósi ýmissa atriða og aðstæðna eru ekki uppi sérstök áform á þessu stigi um endurskoðun reglnanna. Mikilvægt er að þessum reglum sé fylgt eftir sem er verið að gera og útvarpsnefnd hefur í undirbúningi þessa sérstöku könnun eins og ég gat um áðan. Það má segja að í raun sé verið að fylgja málinu eftir en eins og staðan er núna er ekki rétt að endurskoða reglurnar um kostun.