131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Þekkingarsetur á Egilsstöðum.

687. mál
[14:18]

Lára Stefánsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna sérstaklega þessari fyrirspurn því að uppbygging þekkingar og menntunar á landsbyggðinni er grundvallaratriði fyrir velsæld þar um slóðir. Það sem við horfumst í augu við er lágt menntastig, ekki möguleikar á sérstakri nútímalegri atvinnuuppbyggingu vegna skorts á þekkingu og menntun. Því lýsi ég ánægju minni með að fyrirspurnin kemur fram og að starfshópur verði skipaður með von um úrbætur.

Á sama tíma minni ég á að á Egilsstöðum hafa menn reynt að beita sér fyrir fjarnámi á háskólastigi en þar hefur aðstaða öll verið til mikils vansa. Sérstaklega vil ég minna á að framhaldsskólinn hefur búið þar við þröngan kost en hann gæti þjónustað ýmislegt á þessu sviði væri þar rými og klárað að byggja.