131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Veiðarfæri í sjó.

613. mál
[14:27]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Fyrirspurnin er í tveimur liðum og er fyrri liðurinn svohljóðandi:

„Hefur Hafrannsóknastofnunin staðið fyrir rannsóknum á umhverfisáhrifum mismunandi veiðarfæra á lífríki sjávar?“

Því er til að svara að Hafrannsóknastofnun hefur á undanförnum árum staðið fyrir allnokkrum rannsóknum á áhrifum veiðarfæra á lífríki sjávar. Hér er um að ræða rannsóknir á áhrifum á umfangi botnvörpuveiða á Íslandsmiðum, áhrifum rækju- og hörpudiskveiða á lífríki botns, áhrif vatnsþrýstiplógs, rannsóknir á lífslíkum þorsks við línu- og handfæraveiðar auk víðtækra kjörhæfnis- og skiljurannsókna sem beinast að verndun smáfisks og annars óæskilegs meðafla í togveiðum. Þá hefur verið unnið að því að kortleggja búsvæði innan lögsögunnar með það í huga að vernda sérstaklega viðkvæm og mikilvæg búsvæði. Hefur stofnunin gert fyrstu tillögur í þeim efnum. Að lokum hafa sérfræðingar stofnunarinnar unnið að greiningu upplýsinga er varpað geta ljósi á áhrif svæðabyggðanna og lokun veiðisvæða á vöxt og viðgang fiskstofna.

Eins og sjá má af þessu hefur Hafrannsóknastofnunin unnið að margvíslegum verkefnum sem ætlað er að varpa ljósi á áhrif veiða á umhverfið. Hins vegar ber að hafa í huga að rannsóknir af þessu tagi eru oftar en ekki langtímaverkefni og endanlegar niðurstöður því ekki fyrirliggjandi. Samkvæmt langtímastefnu Hafrannsóknastofnunarinnar eru rannsóknir á þessu sviði forgangsverkefni á komandi árum og er mikilvægt að stofnuninni verði gert kleift að efla þennan þátt starfseminnar. Í þessu sambandi skal þess getið að til útibús Hafrannsóknastofnunarinnar á Ísafirði hefur verið ráðinn veiðarfærasérfræðingur sem mun vinna að veiðarfærarannsóknum sem væntanlega munu auka þekkingu á umhverfisáhrifum mismunandi veiðarfæra á lífríki sjávar.

Jafnframt er rétt í þessu sambandi að benda á að brýnt er að miða að því að ljúka markvissu átaki við kortlagningu íslensku efnahagslögsögunnar á allra næstu árum svo að unnt verði að undirbyggja aðkallandi friðunaraðgerðir á mikilvægum búsvæðum við landið sem byggja þarf á mun ítarlegri gögnum en nú liggja fyrir á svipaðan hátt og hv. fyrirspyrjandi nefndi í inngangi sínum.

Síðari liðurinn er eftirfarandi:

„Telur ráðherra rétt að auka vægi veiðarfærastýringar við stjórn fiskveiða?“

Ég hef ekki markað beina stefnu í þeim efnum hvort auka eigi vægi veiðarfærastýringar. Við höfum hins vegar lagt áherslu á það, og það var m.a. eitt af því sem lögð var áhersla á í verkefninu Líffræðileg fiskveiðistjórnun, að skoða með hvaða hætti væri hægt að ná fram meiri hagkvæmni, meiri gæðum og betri árangri með því að stýra veiðunum á nýjan eða annan hátt en við höfum gert áður. Eins og ég hef áður sagt frá hér byggðust niðurstöður verkefnishópsins að mestu leyti á því að leggja til frekari rannsóknir og segja má að allar þær tillögur sem þeir lögðu fram séu núna verkefni sem eru í gangi á vegum annaðhvort Hafrannsóknastofnunar eða Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Það má segja að hugsanlega komi út úr þessu starfi niðurstöður sem geti leitt til þess að veiðarfærastýring verði á annan hátt en hún hefur verið. Það er ekki endilega víst, jafnvel þótt út komi jákvæðar niðurstöður í þessu efni, að það leiði til þess að vægi veiðarfærastýringarinnar verði meira því hugsanlegt er þá að einhver önnur tegund af veiðarfærastýringu verði lögð af. Um þetta er einfaldlega of snemmt að fullyrða en tekið verður á því um leið og niðurstöður gefa tilefni til þess.

Ég vil hins vegar bæta við í tilefni af orðum hv. þingmanns í inngangserindi hans að ég held að það sé of djúpt í árinni tekið að segja að okkur hafi gengið illa að byggja upp fiskstofnana frá því að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi var tekið upp. Ég verð þó fyrstur manna til að viðurkenna að ég vildi mjög gjarnan að það hefði gengið betur og hraðar fyrir sig. Við höfum lært mjög mikið á þessu tímabili og höfum um það mjög sterkar og ákveðnar vísbendingar að við getum byggt upp fiskstofna á þann hátt sem við höfum verið að reyna þó að vissulega hafi það af ýmsum orsökum ekki tekist með alla stofnana eins vel og við hefðum viljað.