131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri.

611. mál
[14:59]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þykist vita að á Kirkjubæjarklaustri og í Skaftárhreppi sé dugnaðarfólk sem muni vinna áfram að uppbyggingu atvinnulífs. En þá ákvörðun að loka sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri tel ég afar ófaglega tekna. Það hefur komið fram frá heimamönnum að lítið samráð hafi verið haft við þá um þessa lokun.

Í öðru lagi fer þetta fjármagn sem varið er til að loka húsinu ekki inn í samfélagið, ekki inn í héraðið til að byggja upp nýtt atvinnulíf, heldur fer það út. Sláturfélag Suðurlands skilaði góðum hagnaði síðasta ár, og það er vel.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Var farið ofan í forsendur þessarar beiðni frá Sláturfélagi Suðurlands til að loka sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri? Skriflegri fyrirspurn um hvernig laun heimamanna skiptast á hin ýmsu sláturhús í landinu getur ráðuneytið ekki svarað og segist ekki hafa gögn um það sem eru þó grundvallarforsendur fyrir því að taka ákvörðun um hvar eigi að hagræða og hvar eigi að loka sláturhúsum. Sú ákvörðun að loka sláturhúsinu er engan veginn á faglegum forsendum unnin að mínu mati. Það ber að harma.

Ráðherra hefur síðan í hinu orðinu uppi umræðu um að hann vilji efla úrvinnslu og vinnslu og slátrun á búfé í heimabyggð. Ekki er þetta liður í því, eða er það? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra þá að koma til móts við þá yfirlýsingu sína? Ég tel, frú forseti, að það beri að harma vinnubrögð eins og hér eru höfð í frammi og þau eru á ábyrgð stjórnvalda að hluta til því að þau setja fjármagnið til úreldingar. Þeirra er að meta hvort ástæða sé til og réttmæt krafa að loka. Ég tel að það hafi ekki verið gert í þessu tilviki (Forseti hringir.) og ekki hafi verið réttmæt krafa að loka þessu húsi.