131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heimasala afurða bænda.

636. mál
[15:04]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra varðandi heimasölu afurða bænda. Ég mun reyna að vera ekki með neinn norðangarra en vonast einlæglega til þess að hæstv. landbúnaðarráðherra verði heldur ekki með sömu lætin og þegar hann svaraði mér um daginn þegar ég spurði hann út í útræðisrétt strandjarða. Það fór mjög fyrir brjóstið á honum og honum fannst sú ræða ósæmileg, en margir bændur hafa einmitt haft samband við mig út af þeirri ræðu og sáu mjög lítið ósæmilegt í henni og sjá má þá ræðu í heild sinni á heimasíðu Samtaka eigenda sjávarjarða … (Landbrh.: Flytt þú þessa ræðu fyrst.) Ég er að því núna. Ég er að tryggja mig þannig að maður verði ekki fyrir barðinu á einhverjum ósæmilegum dylgjum frá hæstv. ráðherra sem vill að við gætum orða okkar.

Heimatilbúnar afurðir og hefðir í matargerð eru hluti af menningu hverrar þjóðar. Það er eitthvað sem vekur forvitni ferðamanna og eitt af því sem innlendir sem erlendir ferðamenn sækja í. Dæmin sanna að slík heimavinnsla og sala hafi þegar vakið áhuga. Til dæmis er í mínu kjördæmi haldin mikil hátíð, mikið fjöruhlaðborð í Hamarsbúð á Vatnsnesi. Þar er hægt að fá sér selkjöt; nýtt, saltað eða reykt. Sú matarhefð eða þetta ágæta tiltæki er mjög til þess fallið að halda í gamlar hefðir og varðveita þekkingu.

Ágætur hæstv. landbúnaðarráðherra lét vinna skýrslu um heimavinnslu afurða og sölu þeirra. Í framhaldi af því óska ég eftir því að hann geri grein fyrir hvort hann ætli að hrinda þeim tillögum í framkvæmd sem fram koma í skýrslunni. Í skýrslunni kemur fram að við erum kaþólskari en páfinn á ýmsum sviðum og það eru strangari reglur hér en t.d. í Noregi og í Evrópusambandinu. Fyrst við vorum að ræða um sláturhús, þá erum við með ströngustu reglur í heimi, hugsa ég, hvað varðar slátrun fjár. Það er svo komið að það vantar sláturhús á stórum svæðum. Það er farið að slátra í síauknum mæli tel ég heima á lögbýlum. Það er spurning hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að sú slátrun verði gerð lögleg með einhverjum hætti? Hægt er að vera með færanleg sláturhús eða tryggja einhvern lágmarksaðbúnað þannig að hægt sé að selja beint út af lögbýlinu. (Forseti hringir.) Það væri mjög áhugavert ef hæstv. ráðherra svaraði þessu, vegna þess að hann hefur komið heilu landsvæðunum í klípu með því að (Forseti hringir.) loka sláturhúsum eins og fram hefur komið í umræðunni.