131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heimasala afurða bænda.

636. mál
[15:07]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kemst aldrei hjá því þegar hann fer í ræðustól að komast í smáklípu. Nú bar hann það á þann sem hér stendur að hann kæmi bændum í klípu. Bændur eiga sín sláturhús og reka þau sjálfir. Því miður hafa margir lent í vandræðum með sláturhús sín. Reksturinn hefur ekki gengið upp og þeir hafa orðið gjaldþrota og farið illa.

Ég hef aðeins komið að því sem landbúnaðarráðherra, eins og fram kom í fyrri umræðu, að reyna að hjálpa til í þessum málum. Þetta eru því bara dylgjur, hv. þingmaður, sem ekki eiga heima í annars ágætri ræðu sem hann minntist á í kringum heimavinnslu afurða.

Fyrri spurning hv. þingmanns hljóðar svo: „Mun ráðherra beita sér fyrir því að tillögur nefndar um heimasölu afurða bænda nái fram að ganga og ef svo er, hvernig?“

Nefnd sú sem ég skipaði til að athuga með hvaða hætti bændur gætu í vaxandi mæli selt framleiðslu sína beint frá búum sínum skilaði áliti 31. janúar sl. Niðurstaða nefndarinnar er í stórum dráttum sú að mál þetta þarfnist ítarlegs undirbúnings, bæði að því er varðar að hvaða marki unnt er að slaka á heilbrigðis- og hollustukröfum við framleiðslu slíkra afurða þannig að fulls öryggis sé gætt og eðlilegs samræmis milli afurða og að því er varðar fræðslu og leiðbeiningar fyrir þá bændur sem hyggjast reyna fyrir sér með slíkri framleiðslu. Mun ég beita mér fyrir því að málinu verði fylgt eftir og er að vinna að því í ráðuneyti mínu.

Látið verður á það reyna hvort grundvöllur sé fyrir hliðstæðri þróun að þessu leyti hér á landi líkt og gerst hefur erlendis, t.d. í Noregi. Ég get að vissu marki tekið undir með hv. þingmanni að við erum oft kaþólskari en páfinn og það er rétt sem hv. þingmaður sagði, ég hugsa að við séum miklu strangari með heilbrigðari vörur en í Evrópu eða í Noregi.

Grundvallaratriði er að fyllsta öryggis sé gætt og öryggi neytenda tryggt. Ég vil hafa það alveg skýrt að þessu má ekki fylgja nein áhætta. Mun ég beita mér fyrir því með samráði landbúnaðarráðuneytisins, umhverfisráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og yfirdýralæknis að þessi mál fái þann framgang sem þau þurfa. Síðan er það hliðin sem snýr að bændum. Í tillögu nefndarinnar er lagt til að ferðaþjónustubændur og aðrir sem vilja nýta sér heimasölu afurða efli með sér samtök til að skilgreina og fylgja eftir þeirri þörf sem hér virðist til staðar. Fann ég það glöggt þar sem við hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason vorum á fundi fyrir stuttu með ferðaþjónustubændum á Brjánsstöðum á Skeiðum að það er mikill áhugi ferðaþjónustubænda sem taka gesti sína til sín, hvort sem það eru innlendir ferðamenn, Íslendingar, eða hinir erlendu að verða við kalli þeirra sem ferðast um landið því þetta þekkir fólk erlendis frá.

Ég legg áherslu á að bændur þurfa sjálfir að vinna í þessum málum og er reiðubúinn til samstarfs við þá um þetta málefni eins og hér hefur verið lýst og starf nefndarinnar ber með sér.

Hv. þingmaður spyr: „Mun ráðherra beita sér fyrir því að sala á heimaslátruðu kjöti út af lögbýlum verði leyfð?“

Sala á heimaslátruðu kjöti er óheimil og mun ég ekki leggja til neina tilslökun frá því banni. Það er eitt að bændur slátri lömbum sínum heima fyrir sig og sitt heimili það er annað ef opnað er fyrir sölu á því kjöti út á markað þegar mjög stífar kröfur eru gerðar til sláturhúsanna, bæði hér og í Evrópu. Okkar reglur í þeim efnum miða að því að við stöndumst Evrópu og getum selt kjöt til Evrópu og Bandaríkjanna. Ef við værum þarna komin með aðra aðferð inn á markaðinn gæti hún þess vegna lokað öllum mörkuðum fyrir okkur og valdið mikilli óánægju hér á landi líka. Þarna verður því að vera eins og sagði forðum á Þingvöllum: Ein lög og ein regla.

Eins og ég gat um hafa bændur þann rétt á búum sínum og nýta margir sér að slátra lömbum sínum fyrir sig og sína fjölskyldu. Það er allt annað mál. Bændur geta tekið kjöt út úr innleggi sínu heim úr sláturhúsi og verslað með það að vild. Ég hygg að það fólk sem ætlar í þessa vinnslu mundi nýta sér að taka kjöt sitt heim, afurð sína, láta slátra því í löggildu sláturhúsi sem stenst Evrópumarkað, sem stenst Bandaríkjamarkaðinn, þó að það verði að kaupa þjónustuna af sláturhúsinu. Ég held því að það sé engin spurning í huga þess fólks sem er að þjónusta að það ætli ekki að bæta þessum verkum á sig, það er að gera það sem það kann svo vel. Vilji þeir annast sölu þess til neytenda geta þeir farið þá (Forseti hringir.) leið með kjötinu sem þeir taka heim til sín, það er allt annað mál.

Þetta eru (Forseti hringir.) meginniðurstöður, hv. þingmaður, þess svars sem ég vil byggja á við þinni ágætu fyrirspurn.