131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heimasala afurða bænda.

636. mál
[15:14]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að koma með fyrirspurnina á Alþingi. Það er hárrétt hjá honum að heimasala afurða er hluti af menningu og það er mikil eftirspurn frá ferðamönnum að fá vöru beint frá bóndanum. Hér ríkja afar strangar reglur og manni er spurn: Hvaða ástæður eru fyrir því að við erum með svo strangar og miklar reglur? Ég geri ráð fyrir að aðallega sé verið að hugsa um neytendur fyrst þær eru svona strangar.

Ferðaþjónustubændur hafa mikinn áhuga á málinu, sem von er, því þetta höfðar beint til iðnaðar þeirra eða ferðaþjónustu.

Ég vil taka undir með hv. ráðherra varðandi sláturhúsin. Ég tel að það væri af og frá að leyfa heimaslátrun til að selja afurðir en auðvitað geta menn tekið innlegg sitt út úr sláturhúsi og selt það ef þeir vilja.