131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heimasala afurða bænda.

636. mál
[15:17]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða afar áhugavert efni um að heimagerðan mat og heimagerðar afurðir megi bera á borð. Ég hef nú staðið fyrir því í nokkur ár ásamt nokkrum þingmönnum að flytja hér tillögu um léttvín og hef játað það hér úr þessari pontu að ég hef smakkað léttvín á mörgum bóndabæjum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi aldrei smakkað heimagert léttvín og framleitt á sveitabæ? (Gripið fram í: En sterkt?) Ég ætla ekki að spyrja um það.

Að öllu gamni slepptu þá tek ég mjög undir það sem hér er verið að ræða. Ég tel að það sé mjög áhugavert að auðvelda bændum að selja og kynna heimagerðar afurðir sínar. Ég held að á undanförnum árum hafi reglur okkar að þessu leyti verið allt of strangar og íhaldssamar miðað við það sem maður kynnist í öllum löndum í kringum sig. Það er nánast sama hvar maður kemur í Evrópu, alls staðar er hægt að fara á markað og kynna og kaupa heimagerðan mat.