131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heimasala afurða bænda.

636. mál
[15:19]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Kjartan Ólafsson greindi frá hér þá var það svo að unglingar í Hlíðardalsskóla voru nærðir á heimaslátruðu. Hér stendur nú einn af þeim sem komst þrátt fyrir allt til manns og varð ekki meint af.

Mig langaði hins vegar, frú forseti, að greina frá því að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að rýmka verulega til varðandi sölu á afurðum sem bændur og búandfólk býr til heima hjá sér. Síðastliðið haust fór ég í gönguferð um Alpana. Það var dálítið makalaust að koma ofarlega í Alpana og koma þar í sérstök ostabú, þar sem í miðju Evrópusambandinu var verið að heimila bændum að mjólka með ákaflega frumstæðum hætti og búa síðan til ost og menn komu í stórum hópum langar leiðir til þess að kaupa þessa sérstöku afurð. Þarna fór saman ferðaþjónusta og framleiðsla. Það er það sem við eigum að ýta undir.