131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heimasala afurða bænda.

636. mál
[15:23]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hlýjar undirtektir og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra sjái að það er vel til vinsælda fallið að slaka aðeins á reglunum og horfa ekki eingöngu á ströngustu Evrópureglur heldur líta einnig til þess hvernig þeir meðhöndla minni framleiðendur. Ég tel það mjög mikilvægt.

Ef menn horfa til þess hvers vegna megi ekki selja t.d. út af lögbýlum kjöt af heimaslátruðu og hver rökin séu fyrir því. Það er mjög gott að skoða þau. Það er mjög gott að skoða hvers vegna við erum að banna eitthvað, hv. þm. Drífa Hjartardóttir. Er það vegna matvælaöryggis? Ég efast um það vegna þess að þegar matvæli eru unnin enn frekar eins og stjórnvöld eru einmitt að hugsa um að opna á þá auka þau hættuna á óöryggi matvælanna. Síðan geta dýraverndarsjónarmið spilað þar inn í. En á móti kemur að við höfum leyfi til þess að slátra heima til eigin nota. Auðvitað ber að halda þessi sjónarmið í heiðri.

En það sem mig grunar að vaki fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra þegar honum er svo mikið í mun að koma í veg fyrir sölu út af lögbýlum, er ekki matvælaöryggi og ekki dýravernd heldur að opna ekki glufu í landbúnaðarkerfið, í þessa framleiðslustýringu. Það verður að halda öllu inni.

Ég er að segja við hæstv. ráðherra: Slakaðu aðeins á. Það er miklu betra að opna þetta. Það er betur fallið til vinsælda og síðan er miklu eðlilegra að horfa ekki eingöngu á ströngustu Evrópureglur heldur horfa líka til Evrópu, þ.e. hvernig þeir meðhöndla þá smæstu og sína ferðamennsku. Það tel ég vera atvinnuveginum mjög til framdráttar, frú forseti.

(Forseti (JóhS): Forseti vill minna hv. þingmann á að beina orðum sínum til forseta en ekki einstakra þingmanna.)