131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Söfn og listaverk í eigu Símans.

632. mál
[15:37]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ánægjulegt þegar þingstörfin ganga greiðlegar en áætlað er. Ég hlýt að biðjast velvirðingar á því að ég hafði ekki reiknað með því út frá skipulagningu fundarins að þessi fyrirspurn kæmist að fyrr en rétt undir fjögur þannig að ég brá mér aðeins í burtu.

Ég hef áhuga á að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvað hafi verið ákveðið eða undirbúið við ráðstöfun listmuna vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar og sölu Símans sem illu heilli er nú á fullri ferð í andstöðu við guð og menn, leyfi ég mér að segja, því að það liggur fyrir að þjóðin er lítið hrifin af þeirri fyrirætlan. Þegar gamalgróin og merk opinber stofnun, eins og Síminn er, er seld hangir þar margt á spýtunni. Þarna er samansöfnuð mikil saga og mikil arfleifð og þegar um opinberar stofnanir er að ræða hafa menn kannski ekki haft af því miklar áhyggjur þó að saman væri blandað ýmsum hlutverkum sem jafnvel ættu fremur heima annars staðar í hinum opinbera geira ef um einkarekstur og einkafyrirtæki hefði verið að ræða.

Þetta kom glöggt í ljós þegar menn seldu ríkisbankana og höfðu ekki leitt hugann mikið að því að þar innan veggja var margt sem miklu eðlilegra hefði verið að ríkið leysti til sín og kæmi fyrir annars staðar hjá hinu opinbera áður en slík eign, rekstrarþættir viðskiptabankanna, væri þá seld. Frægast er auðvitað geysilega verðmætt málverkasafn Landsbankans en fleiri merkilegar eignir áttu þar í hlut.

Ég tek fram að ég hef ekki kannað eignastöðuna sérstaklega. Ekki var ástæða til og þess vegna er spurt af því að ég hef ekki beinlínis undir höndum upplýsingar um það hversu mikið af listaverkum, söfnum eða safngripum, kunni að vera í eigu Símans og hvað hafi verið ákveðið þá í þeim tilvikum með ráðstöfun þeirra, hvort þau verði seld einkaaðilum með fyrirtækinu, fylgi með, eða hvort farið hafi verið í gegnum það og það sorterað upp hvað sé eðlilegt að ríkið taki til sín, haldi eftir. Það er ekki seinna vænna að gera það ef til stendur að ana áfram í þessari vitleysu og selja fyrirtækið.

Nú veit ég að vísu að Síminn hefur á undanförnum árum staðið ágætlega að því að skila til Þjóðminjasafnsins t.d. munum sem þar eru vel komnir. Það er auðvitað til fyrirmyndar en það skyldi ekki vera svo að eftir sem áður séu þarna ýmis verðmæti af þessum toga sem ástæða væri til að huga að hvað gert verður með. Því er þessi fyrirspurn fram borin.