131. löggjafarþing — 105. fundur,  6. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[15:59]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Mér er eiginlega óskiljanlegur áhugi hv. flutningsmanns tillögunnar á að draga úr því fé sem veitt er til hafrannsókna. Gjaldtakan í Þróunarsjóðinn var á ákveðnum grundvelli frá upphafi. Gert var ráð fyrir því að ef einhver afgangur yrði þá rynni sá afgangur til hafrannsókna. (Gripið fram í.) Ef hv. þingmenn gætu einu sinni þagað þegar aðrir hafa orðið þá er staðreynd málsins sú að hv. Alþingi hefur ekki breytt þessum lögum. Því standa lögin enn eins og þau voru í upphafi og gjaldheimtan hefur verið á sama grundvelli frá upphafi, að afgangurinn rynni til hafrannsókna. Ætti þetta að vera á annan hátt og hefði þurft að breyta lögunum þá hefði hugsanlega þurft að breyta álagningunni, gjaldið hefði hugsanlega þurft að vera hærra og innheimtan að standa lengur, hefði átt að uppfylla þessi verkefni. Árið 2000, þegar þessi þingsályktun var samþykkt, gat enginn séð fyrir hver staða Þróunarsjóðsins yrði árið 2005.

Mér finnst þetta í hæsta máta óskiljanlegt. Sömu menn og talað hafa hátt og mikið á undanförnum missirum um hve nauðsynlegt væri að auka fjármuni til hafrannsókna vilja nú draga úr þeim fjármunum og nota þá í eitthvað annað.

Þetta ætti kannski ekki að koma mér á óvart. Kannski ætti ég ekki að vera undrandi því að það er svo algengt að menn vilji, þá kannski sérstaklega stjórnarandstaðan, dreifa fjármunum á óábyrgan hátt, sömu fjármununum á fleiri staði en einn, nota sömu fjármunina tvisvar. Það er svo þægilegt að geta gert betur, geta yfirboðið aðra og notað fjármuni annarra til að slá sjálfan sig til riddara. Þeir tala um hafrannsóknir og tala um eitthvað annað og um að nota sömu peningana í tvo mismunandi hluti. Við verðum að vera raunsæ. Við þurfum að fylgja því sem lögin segja til um og láta þá fjármuni sem Alþingi hefur ákveðið að skuli renna til hafrannsókna renna til þeirra hluta.