131. löggjafarþing — 105. fundur,  6. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[16:02]

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er komið til atkvæðagreiðslu frumvarp til laga sem kveður m.a. á um að leggja skuli niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins, raunar ári fyrr en lög kveða á um. Hér er því gripið inn í löglega umgjörð Þróunarsjóðsins með lögum. Orð hæstv. ráðherra um að breyta þurfi lögum til að taka ákvörðun um ráðstöfun fjárins falla því um sjálf sig. Við erum að breyta lögum.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins var m.a. notaður til hagræðingar í sjávarútvegi, þar á meðal til að höggva niður og úrelda skip, skip sem voru atvinnutækifæri margra byggða. Þau voru keypt út úr rekstri, sem var skilyrðið til þess að fá styrk, að þau yrðu gerð ósjófær. Nú vildum við gjarnan hafa varðveitt þessa atvinnusögu. Ég held að mörg þessi skip hafi verið úrelt að ástæðulausu og til tjóns fyrir mörg byggðarlög.

Alþingi samþykkti árið 2000 einróma tillögu um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins kæmi að því að fjármagna vörslu og vernd á nokkrum skipum sem tengdust einmitt þeirri úreldingu sem sjóðnum var beitt til. Þetta var samhljóða ályktun Alþingis. Þess vegna er það fullkomin hneisa ef Alþingi ætlar að samþykkja lög um að leggja sjóðinn niður, sjóð með 300–500 millj. kr. höfuðstól, án þess að sá vilji Alþingis sé virtur og teknar 200 millj. kr. í þetta verkefni, sem Alþingi sjálft hefur samþykkt að fjármagn sjóðsins skuli renna til að einhverju leyti.

Ég tek undir þau orð sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði, og það sem hér er flutt tillaga um, að við afgreiðslu þessa máls verði ákveðinni upphæð varið til að vernda þessi skip. Það er vilji Alþingis frá árinu 2000 og því munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs standa að og ekki víkja okkur undan enda teljum við skylt að verða við þeirri kröfu Alþingis og sjálfsagt að ákveðið fjármagn úr þessum sjóði, þegar hann verður lagður niður, renni til að vernda þennan kafla úr atvinnusögu þjóðarinnar.