131. löggjafarþing — 105. fundur,  6. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[16:13]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta mál er dæmi um það hvernig hægt er að nota meiri hluta á Alþingi til að éta ofan í sig þingsályktunartillögur sem menn hafa jafnvel samþykkt fyrir ekki lengri tíma síðan en fjórum árum. Ef ríkisstjórninni dettur í hug að fara ekki eftir þingsályktuninni, eins og henni datt í hug núna, þá eru menn bara tilbúnir að segja já við því.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra og reyndar fleiri, t.d. hv. þm. Halldór Blöndal, hafa vísað í lögin sem gilda um Þróunarsjóðinn. Þau eru miklu eldri en þingsályktunin og vilji Alþingis kom skýrt fram í ályktuninni. Það er þeim mönnum til skammar sem hér véla um að hafa ekki komið með einhverja aðra niðurstöðu til Alþingis sem hægt væri að bera saman við þann vilja Alþingis sem birtist í þingsályktuninni.

Þetta eru ekki vinnubrögð sem eru Alþingi til sóma, finnst mér.

(Forseti (JóhS): Þingmaðurinn segir?)

Ég segi já.