131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[10:32]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Bændum brá heldur í brún er tilkynnt var í fréttum ríkissjónvarpsins 30. mars sl. að ríkisstjórnin hefði ákveðið að selja Lánasjóð landbúnaðarins og svo kynni að fara að viðskiptabanki í eigu hinna ýmsu eignarhaldsfélaga, fjársterkra einstaklinga eða fyrirtækjasamsteypna eignaðist 1. veðrétt í nánast öllum bújörðum á Íslandi.

Lánasjóður landbúnaðarins er stofnun í eigu ríkisins sem bændur hafa greitt til ákveðið hlutfall af framleiðsluverðmæti sínu og þannig í raun gert honum kleift að lána bændum fé á hagstæðari kjörum en annars hefur viðgengist á markaðnum. Hefur hann átt ríkan þátt í að þróa landbúnaðinn svo vel sem raun ber vitni án stóráfalla einstaklinga og tryggt dreifðan sjálfseignarbúskap vítt og breitt um landið. Lánareglur sjóðsins eru fullkomlega gegnsæjar og bændur hafa jafnan aðgang að sjóðnum óháð búsetu. Þótt sjóðurinn sé í eigu ríkisins fer því fjarri að ríkið hafi sjálfsagðan ráðstöfunarrétt á honum. Það eru bændur og samtök þeirra sem hafa byggt hann upp. Markmið hans er fjármálaþjónusta við bændur á jafnréttisgrunni en ekki hámörkun eigin gróða sem er svo rifinn út úr starfseminni eins og nú tíðkast í mörgum öðrum fjármálastofnunum.

Útlánatöp sjóðsins hafa verið hverfandi og nánast engin ef frá eru talin einstök tilvik í loðdýrarækt og garðyrkju. Það er vel líklegt að laga þurfi lög hans og starfshætti að breyttu umhverfi á fjármálamarkaði. Það verður t.d. að teljast óeðlilegt að þau lán sem sjóðurinn tekur til að fjármagna útlán sín skuli bera um 6% vexti með ríkisábyrgð en eins og lög kveða á um er ríkisábyrgð á sjóðnum og ráðstöfun hans en meðalútlánavextir eru aðeins í kringum 4,5%. Vel mætti hugsa sér að afmarka lánaflokka hans og takmarka lánveitingar við t.d. eina jörð eða lána ekki sama aðila til raðuppkaupa á jörðum. Fram hafa líka komið hugmyndir um að reka sjóðinn samhliða Lífeyrissjóði bænda.

Einn mesti vandi sem nú steðjar að íslenskum landbúnaði er t.d. raðuppkaup einstaklinga og fyrirtækja á jörðum og samþjöppun á framleiðslurétti. Það er sem sagt sótt að sjálfseignarbóndanum, fjölskyldubúunum og hinni dreifðu búsetu í landinu. Fyrsti veðréttur á öllum jörðum í höndum bankastofnana sem eingöngu hugsa um tímabundinn eigin gróða og eigenda sinna getur á skömmum tíma gjörbreytt eignarhaldi á jörðum og búsetumynstri í landinu. Ég er ekkert viss um að vilji þjóðarinnar sé að sú mynd geti blasað við.

Það má vel vera að einstaka bændur sem nú eru við uppbyggð bú sín og hafa notið sjóðsins vilji nú hætta að leggja til hans fé, ekki síst í ljósi þess að uppbyggð bú á verðmætustu jörðum landsins geta átt kost á hagstæðari lánum, a.m.k. tímabundið, hjá viðskiptabönkunum. En ekki er víst að það gildi fyrir alla. Í því niðurbroti á félagslegum skyldum og samheldni sem nú ríður yfir þjóðina kæmi þessi hugsun ekki á óvart. Það má líka vel vera að lánasjóðurinn hafi brugðist seint við breyttum aðstæðum og okkur þarf ekki að koma á óvart þó að fjármálaheimurinn vilji komast yfir þennan sjóð og ná þannig tangarhaldi á nánast öllum bújörðum í landinu.

Þá á ekki að leggjast flatur í þann straum, heldur spyrna við fæti. Búnaðarþing er nýafstaðið. Mál þetta bar aðeins á góma þar en engar upplýsingar eða úttektir lágu fyrir svo að hægt væri að álykta afdráttarlaust um málið. Okkur í landbúnaðarnefnd var afhent skýrsla í fyrradag sem trúnaðarplagg og í henni gefa menn sér nánast fyrir fram að selja þurfi sjóðinn, og unnið er út frá því. Mín skoðun er sú að gríðarleg áhætta sé tekin með því að selja sjóðinn að svo lítt athuguðu máli. Ég vona að um frumhlaup hafi verið að ræða og það verði endurskoðað.

Því leyfi ég mér að beina þessum spurningum til hæstv. ráðherra:

Hverju sætir að landbúnaðarráðherra velur að gefa opinbera yfirlýsingu nú um sölu á Lánasjóði landbúnaðarins, svo örskömmu eftir lok búnaðarþings að hvorki er svigrúm né gögn til að geta ályktað um framtíð sjóðsins?

Er það ætlun ráðherra að keyra sölu lánasjóðsins áfram án frekara samráðs við bændur?

Hefur ráðherra engar áhyggjur af því að með sölu lánasjóðsins sé verið að afhenda 1. veðrétt að nánast öllum jörðum í landinu?

Er ráðherra t.d. reiðubúinn að endurskoða söluhugmyndirnar og leita annarra leiða, t.d. að sameina undir einum hatti rekstur Lánasjóðs landbúnaðarins og Lífeyrissjóðs bænda og ná þannig fram hagræðingu sem tryggi jafnframt að forræði landbúnaðarins á málinu haldist og framtíð lánasjóðsins verði tryggð?