131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[10:49]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir að hefja þessa umræðu, ég held að hún sé þörf, og vil segja í upphafi að starfsemi Stofnlánadeildar landbúnaðarins og síðar Lánasjóðs landbúnaðarins er mjög merkilegt vitni um félagsþroska og samstöðu innan einnar stéttar eða atvinnugreinar. Með búnaðargjöldum, sem aftur hafa gert mönnum kleift að halda vöxtum niðri á lánum til ungra bænda til jarðakaupa og uppbyggingar, má segja að kynslóðirnar í landbúnaðinum hafi stutt hver aðra þannig að þeir sem eru búnir að koma sér fyrir hafi stutt við bakið á þeim sem eru í uppbyggingu á hverjum tíma.

Ég er ekkert feiminn við að ljúka lofsorði á slíkt virðingarvert félagslegt framtak og félagslega samstöðu hvort sem einhverjum dytti í hug að kalla það gamaldags eða ekki. Frjálshyggjuhaukarnir mega hafa um það hvaða orð sem þeir vilja en mér finnst þetta merkilegur og virðingarverður félagslegur þroski sem bændur hafa í gegnum tíðina sýnt með þessu og ég vona svo sannarlega að a.m.k. eitthvað eimi eftir af honum. Ég vara harkalega við því að menn einkavæði grunnfjárfestingarlánasjóð landbúnaðarins. Ef einhver atvinnugrein býr við sérstakar aðstæður sem menn ættu að huga að áður en þeir fara út í slíkt er það landbúnaðurinn í hinum strjálu byggðum.

Ég held að sporin hræði varðandi einkavæðingu fjárfestingarlánasjóða iðnaðarins og sjávarútvegsins. Ég þekki það vel af eigin raun og samskiptum við menn, bæði iðnrekendur og sjálfstæða litla útgerðaraðila úti um landið, hvers konar þrautagöngu þeir hafa margir mátt ganga núna eftir að Fiskveiðasjóður og Iðnlánasjóður liðu undir lok varðandi ósköp einfaldlega grundvallarfjármögnun í uppbyggingarverkefnum sem þeir áður gengu að vísri í fjárfestingarlánasjóðum sínum.

Ég vara einnig við því að menn dæmi hlutina alfarið út frá tímabundnu ástandi í núinu. Er víst að vaxtakjör bankanna verði hin sömu um ókomin ár? Eru ekki vextir að hækka hjá bönkunum í dag? Eigum við að dæma þetta út frá þeim leiðangri sem bankarnir eru greinilega í eftir opinberu lánasjóðunum sem eftir eru, þ.e. Íbúðalánasjóði og núna Lánasjóði landbúnaðarins? Ég held að menn ættu að ganga hægt um gleðinnar dyr í (Forseti hringir.) einkavæðingarglerbúðinni.