131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[10:54]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Bændur eru á þeirri skoðun að það eigi að leggja þennan sjóð niður. Mér finnst að það eigi að taka mark á þeim vilja, en það á auðvitað að vanda sig við það og standa vel að því. Hæstv. ráðherra hefur komið hér með hugmyndir um það hvernig eigi að standa að þessu og allar hafa þær gengið í þá sömu átt að hugsanlegar eignir sjóðsins verði nýttar bændum til hagsbóta. Ég fagna því, einfaldlega vegna þess að það var ekki gert varðandi atvinnuvegasjóðina. Fjármunum t.d. Iðnlánasjóðs var bókstaflega stolið af þeim sem höfðu greitt gjaldið til sjóðsins. Það var bara hirt í ríkissjóð. Það ætla menn ekki að gera við bændur.

Ég set hins vegar spurningarmerki við og spyr hvað það þýði í raun og veru ef menn ætla að láta fjármunina ganga t.d. til Lífeyrissjóðs bænda en að ríkið haldi eftir skuldbindingum. Hvað þýðir það? Ég vil fá betri skýringu á því hjá hæstv. ráðherra hér á eftir hvað átt er við með því, (Gripið fram í.) hvort það eru miklir fjármunir eða eitthvað sem á eftir að falla á ríkið. Ég er ekki sáttur við að ekki liggi mjög skýrt fyrir hvað er átt við með því.

En auðvitað verða menn líka að meta stöðu skuldara þessa sjóðs og velta fyrir sér hvort einhver vandamál geta komið upp ef sjóðurinn verður seldur með eignum og skuldum. Ég held þess vegna að það þurfi að vanda sig við það sem hér er verið að tala um að gera. Ég get ekki haft þá skoðun að það eigi að vera á móti því að leggja hann niður. Það má líkja þessu við gömlu hestasláttuvélarnar, þegar þær voru orðnar úreltar fóru þær að ryðga og fúna í túninu en menn átu hrossin sem höfðu dregið þær.