131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

695. mál
[11:06]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sem finna má á þskj. 1053.

Með þessu frumvarpi er lögð til breyting á 2. gr. umræddra laga og miðar hún að því að kveða skýrt á um almenna aðsetursreglu varðandi ótakmarkaða skattskyldu lögaðila. Í 2. gr. laganna er í fimm töluliðum kveðið á um hvaða lögaðilar beri ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Það eru þeir lögaðilar sem á hvílir skylda til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra er aflað og eignarskatt af öllum eignum sínum hvar sem þær eru.

Í 1.–4. tölulið er t.d. talað um hlutafélög, samlagsfélög og sameignarfélög sem skráð eru hér á landi.

Í 5. tölulið segir í núverandi ákvæði að á öðrum félögum en greinir í 1.–4. tölulið hvíli umrædd skattskylda. Í málsgrein sem fylgir 5. töluliðnum er að finna aðsetursreglu, þ.e. reglu sem segir að félag teljist eiga hér heimili ef það er skráð hér á landi, telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn þess er hér á landi. Skattyfirvöld hafa talið að 5. töluliður tæki til óskráðra hlutafélaga og að aðsetursreglan í 5. tölulið tæki síðan til þeirra.

Með úrskurði yfirskattanefndar frá því í október sl. var þessum skilningi skattyfirvalda hafnað. Yfirskattanefnd taldi að umræddur 5. töluliður tæki einungis til annarra félaga en þeirra sem talin eru upp í 1.–4. tölulið greinarinnar. Þar af leiðandi tæki aðsetursreglan sem er að finna í 5. töluliðnum ekki til hlutafélaga sem skráð eru erlendis, jafnvel þótt þau ættu hér heima samkvæmt eigin samþykktum og hefðu raunverulega framkvæmdastjórn hér á landi. Yfirskattanefnd tók einnig skýrt fram að aðsetursreglan sem er að finna í 5. tölulið tæki einungis til hans en ekki til félagsforma sem talin eru upp í töluliðum 1.–4. Það er því ljóst að í lögum nr. 90/2003 er ekki fyrir að fara almennri aðsetursreglu varðandi ótakmarkaða skattskyldu lögaðila.

Með frumvarpi því sem ég mæli nú fyrir er verið að tryggja Íslandi skattlagningarrétt í þeim tilvikum þegar lögaðilar sem upp eru taldir í 1.–4. tölulið greinarinnar eru skráðir erlendis en telja heimili sitt hér á landi samkvæmt eigin samþykktum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn þeirra er hér á landi. Með þessu er lögð áhersla á að skattskylda lögaðila markast ekki af formreglum einum saman, eins og skráningu, heldur einnig af efnisviðmiðum.

Regla sem þessi hlýtur að teljast eðlileg og rökrétt í ljósi almennra reglna um skattlagningarrétt ríkja.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þessu frumvarpi verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.