131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[11:09]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda sem er að finna á þskj. 1054.

Eins og kunnugt er stendur Lífeyrissjóður bænda frammi fyrir vaxandi vanda gagnvart tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins. Til þess að stjórn hans geti brugðist við þessum vanda eru með frumvarpi þessu lagðar til tvær efnisbreytingar á gildandi lögum um Lífeyrissjóð bænda og er frumvarpið flutt að ósk stjórnar sjóðsins.

Í fyrsta lagi er lagt til að breyta ákvæðum er lúta að iðgjöldum sjóðfélaga og mótframlagi launagreiðenda þannig að hægt verði í samþykktum lífeyrissjóðsins að hækka iðgjöld og mótframlag svo að styrkja megi stöðu hans.

Í öðru lagi er lagt til að opna fyrir möguleika á aldurstengingu lífeyrisréttinda sem mjög hefur rutt sér til rúms eins og menn þekkja í öðrum lífeyrissjóðum. Eins og áður segir er halli á tryggingafræðilegri stöðu Lífeyrissjóðs bænda og kemur þar margt til. Þannig hefur aldursskipting sjóðfélaga ætíð verið sérlega óhagstæð miðað við flesta aðra lífeyrissjóði og lífeyrisbyrði sjóðsins þar af leiðandi verið mjög há. Meðalaldur sjóðfélaga verður hærri með hverju árinu sem líður og greiðandi sjóðfélögum fækkar. Af þessum sökum eru framtíðarskuldbindingar sjóðsins mjög þungar. Lífeyrisþegum sjóðsins fjölgar og eru þeir nú fleiri en greiðandi sjóðfélagar. Lífeyrisbyrði sjóðsins nam í árslok 2004 um 158%, en það þýðir að greiddur lífeyrir er nærri 60 af hundraði hærri en þau iðgjöld sem greidd eru til hans. Sjóðurinn þarf því stöðugt að ganga á eignir sínar og ávöxtun þyrfti að vera mjög góð, betri en hjá flestum öðrum lífeyrissjóðum, til að halda í horfinu.

Talið er að frekari möguleikar til að bæta stöðu Lífeyrissjóðs bænda að óbreyttum lögum séu ekki fyrir hendi. Því er lagt hér til og talið nauðsynlegt að opna fyrir möguleika á hækkun iðgjalds sjóðfélaga, mótframlags launagreiðenda svo og aldurstengingu réttinda, sem er að mati tryggingafræðings sjóðsins orðin óhjákvæmileg.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að væri hér um að ræða hefðbundinn lífeyrissjóð mundi hann ganga í gegnum breytingar af þessu tagi með því að breyta samþykktum sínum eða reglum á ársfundi en þar sem hér er um að ræða sjóð sem um gilda sérstök lög og þar sem ákvæði af þessu tagi er að finna í umræddum lögum er óhjákvæmilegt að verða við óskum stjórnarinnar með því að leggja það fyrir Alþingi að gera þær breytingar sem hér eru lagðar til. Öðruvísi koma þær ekki til framkvæmda.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins.