131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[11:19]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ekki nýtilkomið að Lífeyrissjóður bænda glími við vanda, því miður. Hann er vel kunnur og hefur verið fyrirsjáanlegur eins og þróunin hefur verið innan þeirrar stéttar mörg undanfarin ár og á löngu árabili. Vandinn er að hluta til sértækur. Hann lýtur að sérstökum aðstæðum í landbúnaðinum og á sér sögulegar skýringar og rætur, eins og þetta með aldurssamsetningu stéttarinnar. Það er líka ástæða til að hafa í huga og minnast þess hvernig að rekstri í landbúnaði hefur verið og er enn þá í verulegum mæli staðið, að hjón eða fjölskyldur standa saman að rekstrinum þó að lífeyrisréttindin hafi kannski fram að því síðasta fyrst og fremst verið bundin við bóndann sem skráður hefur verið fyrir búinu.

Að hluta til er vandi Lífeyrissjóðs bænda líka almenns eðlis og tengdur vanda margra annarra lífeyrissjóða. Að sjálfsögðu bætir ekki úr skák fyrir Lífeyrissjóð bænda þær nýju aðstæður sem m.a. nýtt mat á lífslíkum og örorkulíkum sem tekur til lífeyrissjóða almennt frá sl. ári ber með sér. Þann vanda þarf Lífeyrissjóður bænda að takast á við eins og aðrir lífeyrissjóðir.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að leggja áherslu á og hafa í huga ábyrgð og aðild ríkisins að málinu. Eins og fram kom að hluta til í svari hæstv. fjármálaráðherra í andsvari áðan er ríkið í mjög sérstakri stöðu í málinu. Vegna samskipta sinna og samninga við bændur er ríkið í hlutverki launagreiðandans að því leyti að það greiðir mótframlagið og það framlag ríkisins er hluti af samningsbundnum samskiptum ríkisvaldsins og bænda. Ég held að allir hljóti að átta sig á því að á þeim vanda verður ekki tekið og hann verður ekki leystur nema með þátttöku ríkisins á a.m.k. þennan hátt og ef ekki víðtækari. Ég held að fyrir því séu ærin sanngirnisleg og söguleg rök af því að um málefni lífeyrisréttindi stéttarinnar hefur verið búið með mjög sérstökum hætti frá byrjun.

Best væri auðvitað að það horfði til betri tíðar í málefnum Lífeyrissjóðs bænda á komandi árum gegnum það að atvinnugreinin blómgaðist og þar yrðu nauðsynleg og löngu tímabær kynslóðaskipti og endurnýjun í greininni. Mér finnst varla hægt að hafa umræðuna öðruvísi en þannig að minnt sé á þann möguleika að það verði ósköp einfaldlega viðsnúningur í málefnum atvinnugreinarinnar og hún komist út úr þeirri krónísku varnarstöðu sem hún hefur lengi verið í með versnandi aldurssamsetningu og fækkun þeirra sem eru virkir greiðendur iðgjalda í sjóðinn. Það er auðvitað ekki bara lífsspursmál fyrir málið hvað varðar lífeyrisréttindin og Lífeyrissjóð bænda, það er lífsnauðsyn fyrir atvinnugreinina og þó fyrr hefði verið að menn reyni að snúa þar einhverri vörn í sókn. Með því að leggja sitt af mörkum til framsækinnar og uppbyggilegrar atvinnustefnu sem gæti þýtt að landbúnaðurinn gengi í endurnýjun lífdaga, blómgaðist og þar yrðu hressileg kynslóðaskipti á komandi árum gæti því staðan gjörbreyst. Hún þarf að gera það, ekki bara lífeyrissjóðsins vegna heldur landbúnaðarins vegna og byggðarinnar og strjálbýlisins á Íslandi vegna. Það væri langróttækasta og mesta framtíðarlausnin í þessum málum. Það verður gaman að heyra ræður þeirra sem telja sig handhafa þess að vera framsýnir og nútímalegir í þessum efnum. Þá getum við hinir sem eigum að vera fulltrúar hestasláttuvélanna lært af því.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að umræðan áðan og ræður sem ákveðnir hv. þingmenn héldu, t.d. hv. þm. Katrín Ásgrímsdóttir, ung og framsækin kona sem kemur hingað á þing, eru dapurlegar þegar menn ætla að afgreiða sjónarmið einhverra annarra á þann einfalda og ódýra hátt að þeir séu fulltrúar einhverrar fortíðarhyggju og vilji fara aftur í moldarkofana eða nota hestasláttuvélar. Það lá í orðum fleiri en eins og fleiri en tveggja manna. Hafa menn einhver sérstök efni á því að tala t.d. þannig um þann sem hér stendur og skoðanir hans eða það sem ég hef staðið fyrir í gegnum tíðina þegar ég hef skipt mér af málefnum bænda? Ég held ekki. Ég held að fulltrúar kerfisins, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, sem bera nánast óskoraða ábyrgð á því í hvaða stöðu landbúnaður á Íslandi er í dag ættu að líta í eigin barm. Ekki er það ég sem bjó til SÍS-kerfið. Ekki er það ég sem fann upp útflutningsuppbæturnar á sínum tíma og kom landbúnaðinum í þá herfilegu stöðu sem hann var kominn í á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Það var Ingólfur Jónsson á Hellu sem bjó út útflutningsuppbæturnar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins með Alþýðuflokknum sáluga og ég veit ekki betur en Framsóknarflokkurinn hafi farið með landbúnaðarráðuneytið og ráðið meiru um þann málaflokk en nokkur annar stjórnmálaflokkur í samanlagðri Íslandssögunni.

Ég bið því hv. þingmenn að kasta ekki steinum úr glerhúsi. Þó að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum þær hugmyndir að það geti verið fleiri leiðir færar í vanda Lánasjóðs landbúnaðarins en þær einar að einkavæða hann skal enginn tala þannig til okkar að það þýði að við viljum ekki takast á við vandann og horfast í augu við hann.

Hverjir hafa flutt tillögur um að menn leggi grunn að einhverri nýrri framsækinni og uppbyggilegri atvinnustefnu fyrir landbúnaðinn aðrir en við? Hvar eru gjörðir stjórnarflokkanna í þessum efnum? Það er ekki nóg að ráða einn hálfbrjálaðan mann, eins og hæstv. landbúnaðarráðherra orðaði það sjálfur, sem umboðsmann íslenska hestsins. Það er ekki nóg að slá um sig og halda góðar ræður á árshátíðum og þorrablótum og horfa á þá hluti sem eru að gerast í landbúnaðinum og við erum m.a. að horfast í augu við, sem endurspeglast í gríðarlegum vanda Lífeyrissjóðs landbúnaðarins. Af hverju? Af því að uppdráttarsýki er búin að vera í greininni, því miður mjög lengi. Það er rétt. En það hefur lítið lagast og aldurssamsetningin versnar og virkum (Gripið fram í.) greiðendum í sjóðinn fækkar, hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson. Það er alveg sama hvað hæstv. landbúnaðarráðherra heldur margar 17. júní-ræður þar sem allt túnið er þakið blómum og framtíðin er svo falleg að það hálfa væri nóg. (Gripið fram í.) Veruleikinn er eins og hann er og við glímum við hann m.a. í umfjöllun um þetta frumvarp fjármálaráðherra um að taka á vanda Lífeyrissjóðs bænda.

Ég lýsi eftir því að þeir sem telja sig handhafa sannleikans og bjartrar framtíðar í þessum efnum leggi eitthvað á borðið með sér annað en orðagjálfrið. Hvar eru þær raunhæfu tillögur og aðgerðir sem við getum borið von um að þýði t.d. eðlilega endurnýjun og eðlileg kynslóðaskipti í landbúnaðinum? Er núverandi ástand, núverandi verð á kvótum, núverandi uppkaup stórefnamanna á jörðum beinlínis féleg framtíð í þessu samhengi? Halda menn að vænlegt sé fyrir unga bændur að taka við jörðum feðra sinna og byggja þar upp mjólkurbú ef það er rétt að mjólkurkvótinn sé orðinn svo dýr að það sé jafnvel auðveldara að hefja búskap utan kerfisins en að reyna að kaupa sér kvóta? Þannig er veruleikinn. Og hvað er verið að kaupa? Hvað er verið að kaupa þegar menn kaupa mjólkurkvótann? Verið er að kaupa rétt til ávísana frá hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, á grundvelli tímabundins samnings um stuðning ríkisvaldsins við búvöruframleiðsluna. Rétturinn til að fá ávísanir frá hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, gengur kaupum og sölum fyrir ótrúlegar fjárhæðir. Það er snilldarlegt kerfi, er það ekki? Það er snilldarlegt kerfi að menn skuli láta viðskipti með réttinn til ávísanagreiðslna úr ríkissjóði vera orðinn að sjálfstæðu verðmæti í viðskiptum í atvinnugreininni sem hefur þau áhrif m.a. að þröskuldur myndast sem þarf að stíga yfir í hverjum einustu kynslóðaskiptum, því að þegar ungur bóndi, bóndasonur eða bóndadóttir stendur frammi fyrir því að meta: Hef ég möguleika á að taka við búi foreldra minna? Gegn hverju reikna menn dæmið og samanborið við hvað er það borið? Jú, hinn möguleikann, að selja réttinn til ávísana frá hæstv. ráðherra, Geir H. Haarde, meðan hann er í því sæti.

Þetta er fínt kerfi. Þetta er auðvitað að hafa nákvæmlega sömu áhrif nema bara enn þá ýktari í landbúnaðinum eins og stórkvótakerfið hefur í sjávarútveginum þegar menn eru þar að velta fyrir sér: Er grundvöllur fyrir því að taka við bátnum af foreldrum mínum? Ef t.d. einyrkjaútgerð á í hlut standa menn frammi fyrir því að velta því fyrir sér hvort komi betur út, hvort sé raunhæfara, hvort sé betri fjármálastjórn, að reyna þetta áfram eða selja kvótann og fá eina feita ávísun og geta lifað í vellystingum praktuglega eftir það. Hver er útkoman? Í 9 tilvikum af hverjum 10 selja menn og einyrkinn í útgerðinni er að hverfa. Það eru bara trillur og stórútgerðir sem verða eftir. Svona er þetta.

Varðandi hugmyndirnar sem voru ræddar áðan um að Lánasjóður landbúnaðarins verði einkavæddur, það á að kalla hlutina réttum nöfnum, ef hann verður seldur og eigum við að giska á að Kaupþing – Búnaðarbanki gæti slumpast á að bjóða í hann, eigum við að láta okkur detta það í hug? Hafa þeir ekki verið nokkuð fyrirferðarmiklir í því að fara um sveitir og bjóða bændum sem best hafa veð og best eru staddir að taka þá í viðskipti? Jú, eitthvað er um það.

Er það endilega vænlegasta leiðin til þess að ráðstafa söluverðmæti í eitt skipti inn í Lífeyrissjóð bænda, jafnvel þótt það verði umtalsvert og þó að muni um það? En hann verður ekki seldur nema einu sinni og þar með er líka farið það sem hann hefur staðið fyrir, sem er grunnfjármögnunin án tillits til aðstæðna, án tillits til þess hvar menn búa í þessari atvinnugrein.

Hvernig væri nú að skoða þá leið að sameina eða samreka a.m.k. Lífeyrissjóð bænda og Lánasjóð landbúnaðarins þannig að eigið fé lánasjóðsins yrði þar til styrkingar? Það mætti m.a. ná stórfelldum árangri í að draga úr rekstrarkostnaði með slíkri samþættingu. Við skulum ætla að slíkur mun öflugri aðili næði betri kjörum varðandi fjármögnun sína, það er engin ástæða til að ætla annað. Þarna mætti því væntanlega slá margar flugur í einu höggi. Lífeyrissjóðirnir hafa fullar heimildir til að lána sjóðfélögum sínum, þau lán má væntanlega skilgreina þannig að þau gætu í reynd verið ígildi jarðakaupalána til dæmis. Það er ekkert vandamál að ungir sjóðfélagar í Lífeyrissjóði bænda eigi þannig skilgreindan lánsrétt til dæmis. Ef ekki mætti í sjálfu sér halda þessu lagalega aðskildu en samreknu. Það eru auðvitað ýmsar leiðir færar í því, auk þess sem það vill svo til að um Lífeyrissjóð bænda gilda sérlög og ég sé ekki neina ástæðu til þess að aðrir þyrftu að amast við því að í þeim sérlögum væri gengið frá þessu og um þetta búið með sérstökum hætti. Ég sé ekki að það geri neinum neitt. Það eru því miklir möguleikar í að skoða þetta og ég hvet til þess að það verði gert rækilega.

Að mörgu leyti gildir það sama um Lífeyrissjóð bænda og gerði áður um Lífeyrissjóð sjómanna, að ríkisvaldið átti mjög sérstaka aðild að þeim málum. Við vitum það sem þekkjum þá sögu að í gegnum tíðina hefur verið gripið til margvíslegra ráðstafana af hálfu ríkisvaldsins til þess að tryggja betur lífeyrisréttindi sjómanna. Því miður ekki nóg. Því miður stóð ríkið aldrei að fullu við ábyrgð sína á því t.d. þegar menn reyndu á sínum tíma að taka upp 60 ára aldursreglu í Lífeyrissjóði sjómanna. Það stendur enn upp á ríkisvaldið að efna það þannig að sennilega vantar um einn og hálfan milljarð í eigið fé Lífeyrissjóðs sjómanna, sem reyndar er nú að sameinast öðrum, til þess að sjóðnum hafi verið bætt að fullu það sem hann tók á sig vegna áformanna um 60 ára aldurstökurétt.

Menn hafa þó sýnt þessu skilning og viðurkennt þetta í verki með margvíslegum hætti á undanförnum árum. Til dæmis hefur ýmsu skiptagóssi úr fórum sjávarútvegsins verið ráðstafað inn í Lífeyrissjóð sjómanna. Gerðir voru upp gamlir sjóðir og hluta af andvirði þeirra var varið í Lífeyrissjóð sjómanna. Þar með var viðurkennd í verki aðild ríkisins og ábyrgð að því máli. (Gripið fram í: Ekki Fiskveiðasjóður.) Ekki Fiskveiðasjóður að vísu, það er rétt. Það er náttúrlega grundvallarmunur á þeirri ráðstöfun sem yrði í því tilviki ef Lánasjóður landbúnaðarins gengi allur til þess með einhverjum hætti, hvort sem það væri sameining eða söluandvirði, að styrkja Lífeyrissjóð bænda. Það væri miklu ríkari viðurkenning á því að það er sú stétt sem byggt hefur þann sjóð upp og að hann tilheyri þeirri atvinnugrein en var þegar fjárfestingarlánasjóðir hinna atvinnuveganna, iðnaðarins og sjávarútvegsins, voru í raun teknir með öðrum hætti.

Það eru ærin rök fyrir því að takast á við þennan vanda. Ég segi hiklaust að ég fagna því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan, sem á mannamáli þýðir auðvitað að menn horfast í augu við það að lítið verður hægt að gera í þessum efnum nema ríkið komi þar að með beinum eða óbeinum hætti, þ.e. ef bændur takast á við það m.a. með því að hækka iðgjaldagreiðslur sínar í sjóðinn verði ríkið að koma á móti með mótframlögum og hækka þau. Það væri greitt úr ríkissjóði og er þá að sjálfsögðu hluti af hinum samningsbundnu samskiptum ríkis og bænda sem menn eiga að horfa til.

Frú forseti. Við erum á ákveðnu millibilstímabili hvaða varðar uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins í landinu. Það er mikil gæfa fyrir Ísland að eiga samtryggingarlífeyrissjóðina og það var mikið gæfuskref þegar uppbygging þeirra hófst um 1970. En því verki er ekki lokið. Það var ekki fyrr en fyrir tiltölulega fáum árum sem menn náðu í raun og veru utan um það í heild sinni að menn færu að greiða af öllum launum og að allir færu að greiða í lífeyrissjóði. Við eigum enn 15–25 ár í land hvað það varðar að kerfið verði orðið fulluppbyggt og komið í jafnvægi.

Þetta millibilsástand þurfum við að brúa og takast á við, m.a. með aðgerðum til að styrkja stöðu veikustu lífeyrissjóðanna og með því að búa þannig um samspil lífeyrisréttindanna og greiðslna úr almannatryggingakerfinu að öllum verði sköpuð sómasamleg kjör. Við eigum ekki að dæma einhverja einstaka hópa, hvort sem það eru bændur eða sjómenn á tilteknu árabili, til mun verri lífskjara á eftirlaunaaldri en við höfum efni á að búa þjóðinni almennt. Þetta snýst um sanngirni og réttlæti og jöfnuð og alveg sérstaklega er brýnt að menn takist á við þetta hvað varðar bændur sem nú eða á allra næstu árum fara á eftirlaunarétt. Við eigum ekki að horfa upp á það að slíkur hópur komi til með búa við mun lakari lífskjör á ákveðnu tímabili vegna þess að uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins í heild sinni er ekki lokið og það kerfi er ekki komið í jafnvægi. Það kallar á ákveðnar aðgerðir, ákveðnar sértækar aðgerðir, en þær eru liður í almennum hlutum, þær eru liður í því að tryggja almennt betri og jafnari lífskjör í landinu.

Ég trúi ekki öðru en að hér sé fullur pólitískur vilji til að takast á við þessi mál. Þetta eru ekki stórar fjárhæðir sem skekja innviði samfélagsins þó að þarna séu reiddir fram fjármunir sem þarf til að jafna þessa stöðu sæmilega. Það eru öll rök, söguleg, pólitísk og félagsleg til þess að gera það.

Ef við berum þetta saman t.d. við tölurnar sem tengjast því að tryggja réttindi opinberra starfsmanna og það sem ríkið þarf að reiða af mörkum þar og er skylt í þeim skilningi að það er af sögulegum ástæðum sem ríkið ber þá ábyrgð sem þar er um að ræða, um var að ræða hluta af umsömdum kjörum þeirra starfsmanna í gegnum tíðina, þá þurfum við ekki að láta okkur bregða við það sem hér er á ferðinni varðandi Lífeyrissjóð bænda. Það er ekki slíkt stórmál að við getum ekki tekist á við það og klárað það með sómasamlegum hætti. Auðvitað væri verulegur fengur í því ef t.d. með sameiningu eða samrekstri Lífeyrissjóðs bænda og Lánasjóðs landbúnaðarins næðust þeir fjármunir til styrkingar lífeyrissjóðnum og öflugri stöðu þess kerfis í heild sinni, samhliða því að menn væru að spara í rekstrarkostnaði og öðru slíku, að það gæti dugað mönnum.

Ég held að þar gæti líka alveg komið til greina að sortera svolítið upp þau viðfangsefni sem lánasjóðurinn hefur með höndum í dag og að hann dragi sig út af þeim markaði að hluta til. Það gæti vel komið til greina. Til dæmis að eftir stæðu kannski fyrst og fremst grunnlán eins og til jarðakaupa eða sjóðfélagalán sem væru ákveðin grunnfjárfestingarlán nýliða og ungra bænda en menn leituðu síðan til lánastofnana með afganginn.

Að síðustu endurtek ég það, frú forseti, að langróttækasta og varanlegasta lausnin á þessum vanda væri sú að menn tækju höndum saman um að skapa landbúnaðinum skilyrði til þess að blómgast og endurnýjast. Þá leysist þetta í miklu meira mæli af sjálfu sér en nú teiknar til.