131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[11:39]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér um Lífeyrissjóð bænda, það er göfugt málefni og nauðsynlegt að ræða.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, þegar hann ræðir um þennan málaflokk, hvort hann haldi ekki að hámarksinngreiðslur sem ákveðnar voru í upphafi í þennan sjóð frá hverjum framleiðanda hafi ekki einmitt þau neikvæðu áhrif sem við sjáum núna hvað stöðu sjóðsins varðar, þ.e. bændur borguðu hámarksiðgjald í sjóðinn og ef menn voru með stærri bú en svokallað vísitölubú fengu þeir endurgreiðslu og uppgjör eftir áramót frá sjóðnum. Menn borguðu því aldrei í hann eins og aðrar stéttir í þjóðfélaginu sem borguðu af öllum launum. Þannig var nú málið. Ég held að það hafi heilmikið að segja um hvernig staða þessa sjóðs er í dag.

Það er líka staðreynd að frá því að sjóðurinn var stofnaður upp úr 1970 hefur orðið gríðarleg fækkun bænda og ekki er annað fyrirsjáanlegt en að enn fækki inngreiðendum í sjóðinn. En eftir stendur að það er fjöldi bænda sem þiggur greiðslur úr þessum sjóði. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta sé ekki einmitt sá þáttur sem hefur haft áhrif á hvernig staða sjóðsins er.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór víða í umræðunni um Lífeyrissjóð bænda og kom inn á utandagskrárumræðu um Lánasjóð landbúnaðarins. Ég verð að segja um þá ræðu sem flutt var hér af hv. varaþingmanni Katrínu Ásgrímsdóttur að þar var fjallað um það mál af þekkingu og hún kom inn á kjarna málsins hvað Lánasjóð landbúnaðarins varðar.