131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[11:43]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil minna hv. þm. Steingrím J. Sigfússon á þá miklu atvinnuháttabyltingu sem orðið hefur síðan lífeyrissjóðirnir voru stofnsettir hér á landi. Það er sú breyting, sú mikla atvinnuháttabreyting sem er auðvitað að koma niður á bændum og þeim lífeyrissjóði sem við ræðum hér um.

Það er fækkun í greininni og ekki fyrirsjáanlegt annað en að svo haldi áfram. Það verður ekki fjölgun í bændastéttinni. Ég held að einn þeirra þátta sem bændur þurfa að hugsa um og hafa margir hverjir verið að hugsa um og farið út í, og það er að reka búskap sinn í einkahlutafélagsformi. Þá koma þeir sem sérstakir launþegar að búum sínum og geta farið inn í séreignarlífeyrissparnað og höndlað með mál sín með öðrum hætti en áður hefur verið. Þannig voru málin að bændur þurftu einungis að borga iðgjald í Lífeyrissjóð bænda af veltu svokallaðs vísitölubús eða af launum svokallaðs vísitölubús. Þeir sem voru með stærri bú fengu endurgreitt. Þeir fengu í rauninni ekki að borga í lífeyrissjóðinn af þeim launum sem þeir höfðu af búi sínu. Þess vegna er miklu auðveldara hjá mönnum að hafa reksturinn í einkahlutafélagsforminu og geta þá nýtt sér séreignarsparnaðarreglurnar.