131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:04]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns eru lífeyrisgreiðslur úr Lífeyrissjóði bænda afskaplega fátæklegar enda hefur lítið verið greitt þangað inn, þ.e. af lágum viðmiðunarlaunum. Þessar greiðslur eru að meðaltali, samkvæmt svari sem liggur fyrir í ellilífeyri, um 15 þús. kr., 15.115 á mánuði. Nú er það svo að í reglum Tryggingastofnunar er ákveðið frítekjumark fyrir greiðslur úr lífeyrissjóði. Ég man ekki nákvæmlega hverjar þær eru en það eru sennilega um 20 þús. kr. á mánuði sem menn mega hafa án skerðingar sem þýðir að velflestir lífeyrisþegar í Lífeyrissjóði bænda eru fyrir neðan þau mörk og langt fyrir neðan þau, sérstaklega þeir sem eru með 5–8 þús. kr. á mánuði. Sérhver viðbót til þeirra kemur þeim því að fullu til góða. Það er því ekki svo að ríkissjóður græði á þessu nema á þeim sem eru yfir þeim frítekjumörkum sem eru í reglum Tryggingastofnunar.