131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:21]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Í grunninn er ég sammála langflestu sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði í sinni ágætu ræðu. En ég vil spyrja hv. þingmann um tvennt.

Það var mjög athyglisvert sem hann sagði til að mynda um Hótel Sögu, KEA og Mjólkursamsöluna og alla þá milljarða sem eru þar fljótandi undir stjórn annarra en bænda. Ég leyfi mér því að spyrja hv. þingmann hvernig hann sér Alþingi Íslendinga eða framkvæmdarvaldið grípa til aðgerða svo þetta fé fari í réttar hendur.

Hins vegar vil ég spyrja hv. þingmann um þessar 18 þús. kr. sem hann nefndi að væru undanþegnar skerðingu á almannatryggingum, þ.e. fyrstu 18 þúsund krónurnar af lífeyristekjum. Er þetta ekki rangt skilið hjá hv. þingmanni? Er það ekki rétt skilið hjá mér að það sé grunnlífeyrir sem aldrei er skertur sama hversu háar lífeyristekjur einstaklingar hafa, en skerðingarákvæði sem er bundið í lög upp á 45% tekur strax gildi á fyrstu krónum lífeyristekna einstaklinga?