131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:33]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum. Með því skal rýmka heimildir sjóðsins til að fá aukin iðgjöld í sjóðinn og einnig gefa möguleika á auknum lífeyrisgreiðslum.

Hér hefur verið rakið, í ræðum hv. þingmanna sem hér hafa talað auk hæstv. fjármálaráðherra, mikilvægi sjóðsins, staða hans rakin og hvernig hefur gengið til. Ég vil sérstaklega vekja athygli á ágætri ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann fjallaði um hvernig þessi sjóður, eins og margir aðrir lífeyrissjóðir í landinu, varð fyrst til með ákaflega takmarkaðri greiðslu inn í sjóðinn og þar af leiðandi takmörkuðum réttindum. Þetta var ekki eini sjóðurinn. Menn hafa líka minnst á Lífeyrissjóð sjómanna og jafnvel fleiri lífeyrissjóði sem urðu til með því að greiðslur inn í sjóðinn voru takmarkaðar, á þær var sett hámark fyrir utan það að þær voru í heild sinni lágar. Það kom mönnum síðan í koll sem treysta þurftu á greiðslur úr sjóðnum til lífeyrisréttinda.

Á þetta bætist einnig að í atvinnugrein eins og landbúnaði hefur þeim fækkað sem vinna í frumþáttum þessarar greinar og eiga aðild að Lífeyrissjóði bænda. Auk þess nær fólk hærri aldri en áður var sem sýnir góða þróun í þjóðfélaginu hvað það varðar. En allt þetta eykur að sjálfsögðu fjárhagsvanda sjóðsins miðað við kröfur sem honum er ætlað að standa undir og væntingar til sjóðsins.

Það er mikilvægt að menn átti sig á því að þetta er samfélagslegt mál, þetta er mál samfélagsins alls. Þetta er ekki bara mál bændastéttarinnar eða þeirra sem nú stunda landbúnað heldur er þetta mál samfélagsins. Því ber að taka eftir. Það er vilji okkar og stefna að allir búi við sem jöfnust lífeyrissjóðsréttindi og þótt það hafi komið tímabil, á upphafsárum sjóðsins eins og margra annarra sjóða og reyndar jafnvel allt fram til þessa, sem einstaklingar hafa greitt mun minna í sjóðinn en æskilegt væri og eiga því minni réttindi en þeim eru nauðsynleg. Það er samfélagsleg staða sem okkur ber öllum skylda til að taka á. Þetta hefur verið rakið ítarlega.

Þetta frumvarp til laga, um að rýmka heimildir sjóðsins sjálfs til að eiga að innheimta iðgjöld, er því góðra gjalda vert en ég hefði viljað sjá gerða ítarlegri grein fyrir stöðu sjóðsins í heild, þeim skuldbindingum og væntingum sem sjóðfélagar bera til hans og við vildum að þeir ættu rétt á. Það hefur ekki komið nægilega vel fram en hér er samt ekki um þær upphæðir að ræða sem ríði neinn baggamun í efnahagslegu tilliti þjóðarinnar og því ætti að skoðast að bein framlög kæmu af ríkisins hálfu inn í sjóðinn, sem jafnframt hefði þá lagastoð að fólki sem á aðgang að sjóðnum væri tryggður ákveðinn lágmarkslífeyrisréttur og umfram hann kæmu ekki skerðingar vegna fjárvöntunar. Þetta finnst mér samfélagsleg skylda. Ég legg áherslu á að við meðferð málsins í hv. efnahags- og viðskiptanefnd verði farið yfir alla þessa þætti og kannað með hvaða hætti samfélagið, ríkisvaldið, geti komið beint að og komið á eðlilegum grundvelli fyrir sjóðfélaga. Það held ég að hljóti að vera eindreginn og afdráttarlaus vilji allra, að þessi sjóður geti staðið við eðlilegar skuldbindingar.

Ég ætlaði að öðru leyti að gera að umtalsefni þær hugmyndir sem hafa verið uppi um að selja Lánasjóð landbúnaðarins, einkavæða hann og selja og láta hann renna inn í Lífeyrissjóð bænda eða gera annað við hann. Mér finnst það allt annað mál og að það eigi ekki að blandast inn í umræðuna um stöðu Lífeyrissjóðs bænda í sjálfu sér eða ábyrgð samfélagsins á þeim sjóði, þeim rétti og þeim kjörum. Það er mjög ósanngjarnt. Lánasjóður landbúnaðarins er stofnaður með allt annað hlutverk og verkefni og hefur verið byggður upp öðruvísi. Einkavæðing hans og sala getur ekki talist liður í að taka á sig eðlilegar samfélagslegar skuldbindingar, eins og Lífeyrissjóður bænda hefur gagnvart samfélaginu að því er mér finnst.

Lánasjóður landbúnaðarins hefur gegnt gríðarlegu hlutverki við að tryggja jöfnuð milli bænda til lánsfjár. Hann á einmitt ríkan þátt í að Ísland hefur byggst upp á síðustu áratugum í landbúnaði sem sjálfseignarbúskapur, þar sem bændur, stórir eða smáir, hafa átt jarðir sínar og framleiðslumannvirki. Þetta hefur ekki síst gerst fyrir tilverknað Lánasjóðs landbúnaðarins. Vissulega var hann byggður upp og studdur á félagslegum grunni (PHB: Andfélagslegum.) ekki andfélagslegum. Sé það löstur að halda í heiðri félagslegum gildum, ef það er gamaldags að halda á lofti félagslegum gildum og láta sér annt um náungann, bæði líf hans og starf, þá vil ég vera gamaldags, herra forseti. Sótt er að félagslegum gildum í þágu græðgi og eiginhagsmuna. Ég tel að það sé ekki þjóðinni til heilla, muni koma okkur í koll og því sé sjálfsagt að spyrna við fæti eins og t.d. í þessari umræðu um einkavæðingu og Lánasjóð landbúnaðarins.

Hins vegar getur vel komið til greina, eins og ég hef lagt til að skoða, hvort Lánasjóður landbúnaðarins, í stað þess að vera felldur gæti verið samrekinn með Lífeyrissjóði bænda. Þannig mætti ná fram hagræðingu í rekstri af beggja hálfu og afmarka lánaflokka lánasjóðsins við tilgreind atriði. Aðrir lífeyrissjóðir eru virkir í að lána sjóðfélögum sínum, t.d. til að koma sér upp íbúðum. Hjá bændum hefur þetta verið með öðrum hætti. Þeir hafa verið skyldugir til að setja að veði, þótt þeir væru að byggja íbúðarhús, hafa þeir veri skyldugir til að setja að veði íbúðarhús sín, öll útihús og jörðina alla. Þar hefur ekki verið neitt val. Hafi þeir ætlað að byggja fjárhús eða fjós hafa þeir líka orðið að veðsetja íbúðarhúsið og jörðina alla. Á því er engin breyting þótt þetta fari í viðskiptabanka, síður en svo. Staða bænda hefur því verið allt önnur en almennra lántakenda varðandi eignarrétt sinn á húsnæði og jarðnæði.

Hvað segðum við ef við ætluðum t.d. að byggja bílskúr í Reykjavík og þá yrði skylt að veðsetja allt land Reykjavíkurborgar fyrir því? Ég held að ýmsum þætti það nokkuð langt seilst. Þess vegna legg ég áherslu á að í umræðunni um Lífeyrissjóðs bænda verði tekið á málum hans út frá hans eigin forsendum og þeim samfélagslegu skyldum sem við öll berum gagnvart sjóðfélögum þar eins og öðrum lífeyrissjóðsþegum í landinu. Vanti fjármagn til að tryggja stöðu Lífeyrissjóðs bænda eða koma honum fyrir með öðrum hætti má vel vera að rétt væri að sameina hann öðrum sterkari lífeyrissjóði en þá er þetta samfélagslegt mál. Það á ekki að tengjast því að þvinga bændur til að láta aðra félagslega uppbyggða sjóði sína, sem hafa verið stofnaðir í allt öðrum tilgangi, renna til að styrkja lífeyrissjóðinn, sem er félagslegt mál.

Herra forseti. Ég vildi koma þessu á framfæri. Ég tel mikilvægt að Lánasjóður landbúnaðarins verði skoðaður sjálfstætt, út frá hagsmunum bænda og hagsmunum samfélagsins í hinum dreifðu byggðum. Mér óar við því ef hann yrði seldur athugasemdalaust til viðskiptabanka sem þar með fær á silfurfati fyrsta veðrétt í nánast öllum jörðum á Íslandi. Ég teldi það reyndar brot á þeim samningum og þeirri umgjörð sett var um lánasjóðinn. Hann var upphaflega rekinn sem deild í Búnaðarbankanum, meðan hann var ríkisbanki. Þá var litið svo á að um samfélagslega ábyrgð væri að ræða. Á þeim grunni voru þessi lán tekin. Eigi nú á einu bretti að kasta þessu á markað, einkavæða lánasjóðinn og samningana sem gerðir hafa verið við bændur um allt land, einkavæða það og selja, þá tel ég það brot á samfélagslegum sáttmála sem gilt hefur um starfsemi sjóðsins og tel það reyndar óásættanlegt.

Varðandi skýrsluna sem hæstv. landbúnaðarráðherra vitnaði til, um verkefni, stjórn, stöðu og framtíð Lánasjóðs landbúnaðarins, verkefnaskýrsluna, þá dreg ég í efa að sú verkefnastjórn hafi verið rétt skipuð. Hún er skipuð tveim mönnum úr ráðuneytinu, framkvæmdastjóra lánasjóðsins og síðan framkvæmdastjóra Stéttarsambands bænda og formanns. Þar hefur verið lagt upp með þær einu forsendur að selja eigi sjóðinn og laða síðan fram röksemdir fyrir því. Aðrir möguleikar, aðrar ábyrgðir eða öðrum skyldum sjóðsins eru mjög lítil skil gerð í skýrslunni og málið lítt reifað að því leyti.

Ég ítreka það, herra forseti, að það hefur verið styrkur íslensks landbúnaðar og íslensks samfélags að búa að félagslegri samhjálp, félagslegum gildum. Þau hafa í raun, gegnum undanfarna áratugi, verið hornsteinn uppbyggingar og framfara sem Ísland býr að. Þó að við fáum, vonandi einhvern skamman tíma, tímabil þar sem allir vilja ásælast eigur annarra og sérstaklega félagslegar eignir þá tel ég að berjast eigi gegn því fremur en að leggjast í strauminn og fljóta niður með galopinn hvoftinn í von um að geta gleypt eitthvað í þeim darraðardansi. Félagsleg gildi hafa verið okkur styrkur hingað til. Þó að sumum finnist, eins og hefur komið fram hjá hæstv. landbúnaðarráðherra og ýmsum öðrum, einkum í stjórnarflokkunum, að þeim finnist félagsleg gildi úrelt og gamaldags þá er ég þeirrar skoðunar að félagsleg gildi, félagsleg samhjálp sé hornsteinn og hafi verið hornsteinn íslensks samfélags. Ef það er gamaldags þá er allt í lagi að vera gamaldags. Ég tel einmitt að framtíðin felist í félagslegu gildum. Á því eigum við að byggja og þess vegna er Lífeyrissjóður bænda hluti af félagslegri ábyrgð samfélagsins. Skorti fjármagn inn í Lífeyrissjóð bænda þá á það koma þá frá samfélaginu í gegnum ríkisvaldið og ekki að blanda því saman við óskyld atriði.