131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Virðisaukaskattur o.fl.

697. mál
[12:53]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs um þetta frumvarp kannski meira út af því sem ekki í því stendur en því sem verið er að leggja til. Ég tel að út af fyrir sig sé það þakkarvert sem hér stendur og full ástæða til að ýta undir að menn noti vistvænni bifreiðar. Ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að ræða um tillögu sem ég hef flutt hvað eftir annað um að komið verði til móts við innflutning á bílum vegna t.d. slits á vegum, til að reyna að draga úr notkun nagladekkja o.s.frv. Sú tillaga hefur aldrei verið afgreidd úr nefnd.

Það sem fékk mig til að standa upp núna er að hér er ekki tekið á máli sem ég hefði talið að full ástæða hefði verið til að taka á einmitt núna, þ.e. virðisaukaskatti af gjaldinu í Hvalfjarðargöngin. Það hefði átt akkúrat heima núna að ríkið hefði gengið í lið með Speli til að lækka kostnaðinn af því að nýta þau göng. Allar röksemdir fyrir því að ríkið hafi einhverjar tekjur til viðbótar við almennt gjald sem ríkið fær sjálfkrafa af því að menn keyra um þetta mannvirki, þ.e. þungaskatt og kílómetragjald, eru mjög undarlegar. Það eru í rauninni engin rök fyrir þessu einfaldlega vegna þess að þeir sem keyra göngin borga þau upp á 20 árum og ríkið fær mannvirkið afhent skuldlaust eftir þann tíma sem þar um ræðir.

Rökin sem menn hafa fært fram hafa helst verið þau að af því að ríkið gaf eftir virðisaukaskattinn af framkvæmdinni sjálfri þyrfti að innheimta virðisaukaskatt. Nú hagar þannig til að sá virðisaukaskattur verður allur endurgreiddur þegar líður á þetta ár að öllum líkindum, var 934 milljónir, ef ég man töluna rétt sem ég heyrði einhvern tíma. Hver eru þá rökin eftir að búið er að greiða þann virðisaukaskatt upp? Og ég er þó ekki að skrifa upp á að það hefði nokkurn tíma átt að innheimta hann einfaldlega vegna þess að full ástæða var til að ríkið kæmi til móts við þann gríðarlega þjóðhagslega sparnað sem væri kallaður fram með því að grafa þessi göng.

Svo er annað. Hér er verið að tala um vistvænni umferð, verið sé að koma til móts við hana. Rökin sem hæstv. ráðherra, sá sem frumvarpið flytur, hæstv. fjármálaráðherra, færði fram fyrir ekki löngu síðan voru þau að þetta gjald byggðist á því að menn gætu valið á milli þess að greiða það eða aka fyrir Hvalfjörð. En er ekki full ástæða til að ríkið gangi þá í lið þessu verkefni líka af vistvænum ástæðum? Auðvitað væri það ekki heppilegt að menn veldu leiðina fyrir Hvalfjörð og keyrðu t.d. 55 km lengra til Akraness en þeir gera með því að fara í gegnum göngin og eyddu í það eldsneyti.

En hvað sem því líður fannst mér ég ekki geta látið hjá líða að standa upp og vekja athygli á því að það væri mjög eðlilegt að einmitt í þessu frumvarpi væri fólgið framlag ríkisins til að lækka gjald á umferðinni um göngin. Nú er búið að taka ákvörðun um þá lækkun sem Spölur getur mögulega kallað fram, bæði með lengingu lána, sem er auðvitað aðalþátturinn í því að ná niður gjaldinu, og líka með uppgreiðslu lána og nýjum fjármögnunum með lækkuðum vöxtum. En þarna vantar þann hlut sem flestir sem ég a.m.k. hef talað við um þessi mál telja að hefði átt að vera með, þ.e. liðveisla ríkisins til að lækka þetta gjald meira. Ég beini því til þeirra sem um þetta fjalla í nefndinni að það verði skoðað hvort ekki sé rétt að setja þarna inn ákvæði um að fella niður þetta gjald af umferðinni sem er einstakt. Það er ekki verið að innheimta af umferð virðisaukaskatt í öðrum tilfellum. Ekki er eðlilegt að menn standi að þessu með þeim hætti sem þarna er gert.

Ég tel að í nefndinni ættu menn að fara yfir það hvort það getur staðist í raun og veru að halda þessu áfram og legg til og mér finnst að það ætti að vera sáttahluturinn í þessu máli að menn miði niðurfellingu þessa gjalds við þann tíma sem líklegt má telja að búið verði að greiða upp þann virðisaukaskatt sem ríkið gaf eftir á sínum tíma við gerð ganganna.