131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Virðisaukaskattur o.fl.

697. mál
[13:31]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil í meginatriðum lýsa ánægju minni með þá afstöðu sem fram kemur í því frumvarpi sem við ræðum sem fjallar um tímabundna lækkun á gjöldum sem miða að því að gera skatta- og tollaumhverfi fyrir innflutning á vetnisbifreiðum og sérhæfðum varahlutum í þær hagstæðari.

Ég mundi segja að tími sé til kominn að hæstv. ríkisstjórn móti heildarstefnu um þessi mál, þ.e. um sjálfbærar samgöngur, og vetnisbílar eru auðvitað veigamikill þáttur í stefnu um sjálfbærar samgöngur til framtíðar. Eins og vitað er hefur ríkisstjórnin bæði í samgönguáætlunum, langtímasamgönguáætluninni og einnig í samningnum um sjálfbær Norðurlönd undirgengist ákveðnar skyldur í þessum efnum, hefur lýst sig reiðubúna og skuldbundið sig til að efla möguleika okkar á að stunda sjálfbærar samgöngur. Því tel ég það vera ákveðið fagnaðarefni að nú skuli vetnisbílarnir teknir sérstaklega til bæna hvað þetta varðar.

Það er líka rétt sem fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarpið að þær rannsóknir sem fram hafa farið og við eigum möguleika á að láta fara fram varðandi vetni og samgöngur sem byggja á vetni eru auðvitað atvinnuskapandi og eru góð og öflug landkynning eins og stjórnvöld og yfirvöld hafa komist að. Það er alveg ljóst að greinar vísindamanna okkar sem hafa birst á alþjóðavettvangi um vetnisvæðinguna eru þess eðlis að þær vekja verulega athygli, þær vekja heimsathygli og ég tel að þar eigum við gífurlega mikil sóknarfæri sem nauðsynlegt er fyrir okkur að hlúa vel að og gera áætlanir um til framtíðar. Ég tel frumvarpið vera lið í þeirri viðleitni og er þess vegna mjög sátt við það í öllum meginatriðum.

Ég held að við þurfum að skoða þetta svolítið heildstætt. Kannski þurfum við að endurskoða þá pólitík sem við höfum lagt upp með, ákvæðin sem varða niðurfellingu gjalda eða lækkun gjalda, t.d. lækkunina sem fjallað er um í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. sem hafa verið til skoðunar og breytinga undanfarið. Kannski þurfum við að skoða hvort þær breytingar eigi ekkert að vera tímabundnar. Ef við ætlum okkur í alvöru að stefna inn á braut sjálfbærra samgangna og ætlum að sjá til þess að þarna verði neyslustýring sem hið opinbera hefur á valdi sínu að framkvæma með gjaldaálagningu eigum við að gera það hreint og klárt og kvitt og í eitt skipti fyrir öll og sjá til þess að þau skilaboð séu send út í samfélagið að þeir sem ákveða að aka um á ökutækjum sem menga lítið eða minna en venjulegir bensínbílar fái þá ívilnun sem möguleg er fyrir hið opinbera. Ég held að þetta eigi að vera stefnumarkandi ákvörðun sem sé tekin og gefin út sannfærandi yfirlýsing um þannig að ríkisstjórnin standi af alvöru og fullri einurð við þær yfirlýsingar sem fram hafa komið í langtímasamgönguáætlun og í þeim samningum sem við höfum gert á alþjóðavettvangi um aukinn hlut sjálfbærra samgangna. Þetta er skref á þeirri braut og ég sé því ekki annað en að ástæða sé til að fagna og hvetja til þess að ríkisstjórnin gangi áfram þá braut.