131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Virðisaukaskattur o.fl.

697. mál
[13:41]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög skemmtileg hugleiðing því að hv. þingmaður ætlar að flytja söfnun orku í vatnsaflsvirkjunum með uppistöðulónum yfir í söfnun á vetni því það verður að safna vetninu einhvers staðar saman. Notkunin er stöðug allt árið. Hvar ætlar hv. þingmaður að geyma allt þetta gífurlega magn af vetni í staðinn fyrir vatnið?

Ég er hræddur um að það valdi umhverfisspjöllum líka og ekki síðri að búa til öll þau tæki og tól sem þarf til að geyma kannski hálfs árs notkun þjóðarinnar á vetni. Þetta batnar því ekki. Fyrir utan það að virkjanir sem ætlað er að nýta t.d. jökulár í toppunum á sumrin þurfa að hafa gífurlega stórar vélar sem eru vannýttar allar veturinn þegar ekkert vatn rennur eftir viðkomandi á. Þetta eru óskaplega dýrar virkjanir og framleiðsla á hverflunum er afskaplega umhverfisspillandi í því landi þar sem þeir eru framleiddir, stálið sem þarf, kolin sem eru notuð til að framleiða stálið og öll mengunin sem það veldur. Nei takk.