131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Rásir fyrir búfénað til að koma í veg fyrir slys.

245. mál
[14:04]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér liggur fyrir þingsályktunartillaga um rásir fyrir búfénað til að koma því yfir eða undir vegi til varnar slysum. Það sem ég vildi nefna í þessu sambandi er að nú hefur verið lögð fram samgönguáætlun í þinginu en hefur þó ekki verið rædd enn þá. Þar er eins og endranær gert ráð fyrir ákveðnum fjárlagalið sem er reiðvegafé, sem ætlað er einmitt til þess að koma a.m.k. þeirri tegund búfjár, sem eru hestar og hestamennska, af og frá þjóðvegunum. Það fjármagn hefur nýst gríðarlega vel í þeim tilgangi og þar er m.a. gert ráð fyrir undirgöngum undir þjóðvegi og á því svæði sem ég best þekki til hefur það verið tíðkað að slík undirgöng hafi verið lögð. Má þar nefna undirgöng fyrir búfénað á veginum austan við nýju Þjórsárbrúna og á áætlun er að setja fleiri undirgöng undir þjóðveginn frá Hveragerði að Þjórsárbrú. Ég tel því að þetta sé að nokkru leyti í farvegi.

En þess verður að geta að undirgöng sem þessi eru afskaplega kostnaðarsöm. Mér skilst að það séu rösklega þrjár milljónir á göng ef þetta er gert um leið og vegaframkvæmdin á sér stað. Það væri því verðug spurning fyrir hv. þm. Þuríði Backman að svara hvað þessi áætlun kostaði hugsanlega ef við færum allan hringveginn. Við vitum að þetta er vandamál fyrir þá sem þurfa að koma búfé sínu yfir en það væri gaman að heyra hvort hún hefði áætlaðan kostnað samfara þessu.