131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Skaðabótalög.

681. mál
[14:57]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég lofaði að bera blak af Hæstarétti. Í núgildandi lögum stendur, með leyfi frú forseta:

„Bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka skulu vera 30% af bótum þeim sem ætla má að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera (100%) örorku …“

Það er þá er reiknað með að hann hefði lifað en hann lifði ekki. Hæstiréttur verður náttúrlega að fara eftir því sem lögin segja. Við verðum að reikna með því að maðurinn hefði lifað og fengið bætur frá Tryggingastofnun alla tíð. Hæstiréttur verður samkvæmt orðanna hljóðan að reikna með bótum sem maðurinn hefði fengið ef hann hefði lifað, en hann lifir ekki og fær ekki bæturnar. Hæstiréttur verður að komast að þeirri niðurstöðu sem er og sá lapsus sem lagaður er í þessu frumvarpi er mjög nauðsynlegur og mjög þarfur.