131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:10]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Landbúnaðarstofnun sem er á þskj. 1058, mál nr. 700 á þessu löggjafarþingi.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sameina stofnanir, embætti og verkefni á sviði eftirlits og stjórnsýslu innan landbúnaðarins í eina öfluga eftirlits- og stjórnsýslustofnun, Landbúnaðarstofnun. Með þeim hætti nýtist þverfagleg sérþekking betur en hingað til og grundvöllur er lagður að bættri og skilvirkari stjórnsýslu og einfaldara og samhæfðara eftirliti.

Landbúnaðarstofnun er falin framkvæmd ýmissa eftirlits- og stjórnsýsluverkefna samkvæmt lögum sem talin eru upp í 2. gr. frumvarpsins. Lagt er til að eftirtaldar stofnanir landbúnaðarráðuneytisins verði lagðar niður: yfirdýralæknir, veiðimálastjóri og aðfangaeftirlitið. Landbúnaðarstofnun er ætlað að taka að sér hlutverk ofangreindra stofnana. Einnig er lagt til að embætti kjötmatsformanns verði lagt niður og starfsemi þess flutt til Landbúnaðarstofnunar og að starfsemi plöntueftirlits flytjist þangað frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Að auki er Landbúnaðarstofnun ætlað að fara með stjórnsýsluverkefni sem Bændasamtök Íslands hafa farið með og varða framleiðslustýringu í landbúnaði, forðagæslu og eftirlit með aðbúnaði búfjár.

Umræddar ríkisstofnanir og embætti hafa flestar aðeins fáum starfsmönnum á að skipa. Hafa sumar unnið nokkuð einangrað eða verið að hluta vistaðar innan annarra stofnana landbúnaðarráðuneytisins. Samanlögð velta þeirra samkvæmt fjárlögum 2005 er 505,5 millj. kr. og stöðugildi starfsmanna um 50 talsins. Því til viðbótar kemur kostnaður vegna verkefna sem með samningi hafa verið falin Bændasamtökum Íslands.

Með þessum breytingum skapast möguleiki á að samnýta mannafla betur en hingað til með markvissari stjórnsýslu og eftirliti og jafnframt koma í veg fyrir skörun. Landbúnaðarstofnun kemur fram sem ein heild sem auðveldar samskipti við aðrar stofnanir innan lands og utan, svo og við eftirlitsþola. Þá mundi sameining umræddra eftirlitsþátta í eina stofnun auka gagnsæi og trúverðugleika starfsins og koma til móts við vaxandi kröfur um markvissari vinnubrögð og aukna neytendavernd. Ein stofnun væri enn fremur betur í stakk búin til að standa öflugan vörð um heilbrigði manna, dýra og plantna og tryggja aðbúnað búfjár, heilnæmi fóðurs og öryggi í framleiðslu landbúnaðarafurða.

Það er mat landbúnaðarráðuneytisins að tilkoma Landbúnaðarstofnunar mundi skapa grundvöll fyrir markvissari stjórnsýslu í einfaldara og skilvirkara eftirlitskerfi sem líklegt væri til að ávinna sér traust neytenda.

Hæstv. forseti. Ég mæli einnig fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum við stofnun Landbúnaðarstofnunar, á þskj. 1059, mál nr. 701 á þessu löggjafarþingi.

Frumvarpi þessu er ætlað að breyta lögum til samræmis við það sem rakið hefur verið hér að framan og miðar að því að flytja þau verkefni sem um ræðir til Landbúnaðarstofnunar. Ekki er um að ræða efnisbreytingar, einungis er verið að breyta ákvæðum laganna til samræmis við hlutverk og tilgang hinnar nýju stofnunar. Undantekning er þó að því er varðar 10. gr. þar sem ákvæðum er breytt til samræmis við breyttar aðstæður og þarfir að því er varðar rétt manna til kaupa á líflömbum frá ósýktum svæðum og í 27. gr. þar sem kveðið er á um að búfjáreftirlitsmenn skuli líta eftir merkingum búfjár. Breyting þessi er til samræmis við reglur sem settar hafa verið um einstaklingsmerkingar búfjár í þeim tilgangi að tryggja rekjanleika búfjárafurða.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvörpunum verði vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.