131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:22]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég býst við að stofnunin verði deildaskipt innan frá og plöntueftirlitið hafi sinn deildarstjóra, en stofnunin mun fást við mjög mikil verkefni á sem flestum sviðum sem snúa að heilbrigði dýra og heilbrigði manna, heilbrigðiseftirliti o.fl. Dýralæknar eru sérmenntaðir á þessum sviðum. Ég býst við að margir gætu t.d. fengist við að vera yfir deild sem snýr að því að sjá um búvörusamninga, það þarf ekki menntaðan dýralækni þar. Embætti yfirdýralæknis er það stórt í nýju stofnuninni, ég hugsa að þau verkefni séu hátt í 80%. Veiðimálastofnun fæst við sams konar verkefni og aðfangaeftirlitið einnig. Þetta er til að skapa þá stefnu að stofnunin viðhafi mikið fræðilegt öryggi gagnvart sjúkdómum manna og dýra.