131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:25]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Nýlega er búið að slá saman mörgum stofnunum eins og við þekkjum með Umhverfisstofnun. Þangað fór Hollustuvernd, Náttúruvernd, veiðistjóraembættið og eitt og annað. Það verður því miður að segjast eins og er að reynslan af þeirri samsuðu er ekkert sérstaklega góð, alla vega höfum við sem störfum á landsbyggðinni og í tengslum við þá stofnun ekki skynjað einhvern aukinn verkefnatilflutning eða eitt og annað, heldur hefur báknið einungis stækkað og orðið jafnvel erfiðara að fá afgreiðslu mála við það.

Ég vil því spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann hafi farið yfir þá reynslu við þá vinnu sem verið er að fara í með því að slá saman yfirdýralækni og öðrum embættum landbúnaðarráðuneytisins í eina nýja stofnun, Landbúnaðarstofnun. Ég hefði einmitt talið að sú vinna hefði átt að fara fram og sú skoðun til að menn geri ekki sömu mistök og varðandi Umhverfisstofnun.

Önnur mál brenna á fólki í þessum geira, m.a. héraðsdýralæknum, í tengslum við breytinguna sem verið er að fara í. Er hugsunin að breyta eitthvað, fjölga eða fækka héraðsdýralæknaembættum í tengslum við breytinguna, eða á það að vera óbreytt? Það væri fróðlegt að það kæmi fram í umræðunni.