131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:27]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Umhverfisstofnun hefur verið að stíga sín fyrstu skref og mótast, ég hef ekki heyrt neinar slæmar sögur af þeirri stofnun, en það er auðvitað það eftirlit sem heyrir undir umhverfisráðuneytið. Fiskistofa heyrir undir sjávarútvegsráðherra og svipuð hugsun er á bak við Landbúnaðarstofnunina. Mjög hefur verið um það rætt að matvælamálin heyrðu einhverjum til og í mörgum löndum fara menn þá leið að hafa ábyrgðina frá haga í maga, að það sé keðjan öll. Þess vegna færi það auðvitað mjög vel saman með Landbúnaðarstofnun. Stofnunin er ekki hugsuð til að stækka báknið, heldur frekar í hina áttina og gera það skilvirkara.

Hvað héraðsdýralæknana varðar eru engin áform um miklar breytingar, en það yrði auðvitað að skoða það. Þetta gæti líka breytt stöðu þeirra og styrkt héraðsdýralæknisembættin sem eru misjöfn, en ég hef engin áform sett fram eða ráðuneytið um að fækka héraðsdýralæknum. Við teljum að þeir þurfi, sem eftirlitsaðilar og þjónustuaðilar, að vera alls staðar á landinu og þannig mun verða haldið á þeim málum. Það er mjög algengt í dag að menn horfi til breyttra samgangna og hagræði og breyti umdæmum. Yfir það yrði auðvitað að fara með nýjum forstjóra og nýrri stofnun hvað heppilegast væri í þeim efnum. Ef ég segi mína skoðun, ef við horfum lengra fram í tímann, þá getur það t.d. verið á kjördæmavísu.