131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:30]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður er þekktur eftirlitsmaður úr sinni byggð og hefur verið hjá sveitarfélögunum þannig að hann talar af mikilli þekkingu. Ég er nú reyndar þeirrar skoðunar að eftirlitið sé betur komið hjá yfirdýralæknisembætti og héraðsdýralæknum. Ég var nú svona bara að tala um framtíðina. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir fækkun héraðsdýralæknanna eins og má lesa heldur að efla og styrkja störf þeirra og ekkert síður að gera þá tilbúna til þess að taka við stærri verkefnum. Ég var reyndar að segja að það gæti verið markmið í framtíðinni að styrkja þau embætti enn betur eða endurskoða þau og gera þau öflugri og nefndi þess vegna á kjördæmavísu. Þetta eru gríðarlega mikil embætti bæði út af búfé og heilbrigði manna og dýra.

Sláturhúsin eru svo allt annað mál. (Forseti hringir.) Bændurnir hafa fækkað þeim sjálfir.