131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:31]

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um Landbúnaðarstofnun sem mun verða ný stofnun. Mig langar aðeins að leggja nokkur orð inn í þá umræðu sem síðan fer til hv. landbúnaðarnefndar. Hún getur þá notað þau rök sem ég kem með inn í þetta mál.

Fyrst vil ég aðeins koma inn á þann þátt einmitt sem hér hefur komið fram í umræðunni sem er staðsetning stofnunarinnar. Ég held að slík umfjöllun sé eðlileg. Ég held að eðlilegt sé að hún eigi sér stað bæði nú við 1. umr. og síðan inni í landbúnaðarnefnd. Við sjáum oft að verið er að leggja fram frumvörp og þingsályktunartillögur um stofnanir. Hv. varaþingmaður Ísólfur Gylfi Pálmason leggur hér fyrir þingið þingsályktunartillögu um rannsóknarstöð í landgræðslu. Hann velur henni stað í Gunnarsholti. Það er vel til fundið finnst mér. Á sama hátt held ég að ofureðlilegt sé að við förum yfir það hvar þessi stofnun skuli vera. Mér finnst hreint einboðið að hún verði á Selfossi. Ég skal færa fyrir því nokkur rök.

Í fyrsta lagi kemur frá Selfossi eða héraðinu þar um kring u.þ.b. 50% af landbúnaðarframleiðslu landsins. Þar er og til staðar mjög öflug fagþekking t.d. í búnaðarmiðstöðinni sem þar er rekin af Bændasamtökum og ríki. Þar er gríðarlega öflug dýralæknaþjónusta sem hefur yfir miklum mannauði að ráða. Þar eru að sjálfsögðu góðar samgöngur sem verða enn betri þegar samgönguáætlun vindur fram eins og nú horfir. Auk þess er verið að ræða það að selja Lánasjóð landbúnaðarins. Þá losnar þar húsnæði m.a. sem má huga að hvort ekki nýttist þessari nýju stofnun. Það kemur einmitt fram í athugasemdum um frumvarpið að huga þurfi að húsnæði fyrir stofnunina og þarna er það húsnæði einfaldlega fyrir hendi. Mér finnst mörg og flest öll rök og öll rök hníga að því að þessi stofnun, þar sem u.þ.b. 50 manns starfa og fer þeim að sjálfsögðu fjölgandi, verði á Selfossi.

Mig langar aðeins að fjalla um hvað þessi stofnun eigi í raun að gera, hvaða verki hún eigi að þjóna. Hún á að þjóna því faglega verki sem yfirdýralæknir og hans undirstofnanir hafa með höndum. Það er vissulega faglegt verk. Þess vegna skil ég að það sé sett fram í lögunum að dýralæknir skuli vera forstjóri þessarar stofnunar. Það finnst mér afar eðlilegt. Hins vegar er stofnuninni ætlað að sinna fleiru en faglegum þáttum er lúta að heilbrigði dýra og afurða, sláturafurða og þess geira. Stofnunin á t.d. að fylgjast með áburði og sáðvöru, plöntueftirliti og sjúkdómum og meindýrum á plöntum. Þetta er nokkuð óskylt í sjálfu sér. Þetta heyrir ekki undir það sem við þekkjum sem yfirdýralæknisembætti.

Svo er þriðji þáttur þessarar stofnunar. Ég skipti henni í þrjár deildir. Það er sá þáttur sem annars vegar Bændasamtök Íslands hafa innt af hendi fyrir og með landbúnaðarráðuneytinu ásamt búnaðarsamböndunum sem eru í raun handleggur Bændasamtakanna sem ekki er getið í frumvarpinu vegna þess að búnaðarsamböndin í hverjum landshluta fyrir sig annast fjöldamörg verk fyrir Bændasamtök Íslands. Þar kemur því til sögu allt annar faglegur þáttur sem heyrir undir fóðureftirlit, forðagæslu, kvótamál og ýmsar hagtölur sem notaðar eru af þeim aðilum og þeir aðilar hafa gríðarlega öflugt tölvukerfi til að halda utan um slíka hluti. Svo eru það einstaklingsmerkingar búfjár o.s.frv. Þetta eru gríðarlega mörg verk og svo er allt það kynbótastarf sem þessir aðilar vinna. Þess vegna held ég að eðlilegt sé að menn skoði svolítið þessa þrjá þætti sem stofnunin á að fjalla um og að farið sé yfir það. Það kemur fram að deildarskipta eigi stofnuninni. Það er vissulega rétt og hugsanlega kann það að koma til móts við það sem ég er hér að færa fram hvað þetta varðar.

Mér sýnist af athugasemdum við lagafrumvarpið sjálft að þar sé verið að tala um samþættingu verka og að miklir hagræðingarmöguleikar verði. Ég hygg að það verk sem Bændasamtök Íslands og búnaðarsamböndin hafa innt af hendi fyrir ríkið sé unnið á mjög hagstæðan hátt. Ég efa að þegar slíkir verkþættir eru komnir inn í svona stofnun að þeir verði ódýrari eða skilvirkari en nú er. Ég leyfi mér að stórefa það. Þetta þurfum við að fara yfir. Þar að auki er til gríðarleg fagþekking þar inni og mikil og öflug tölvukerfi sem vinna að þeim verkefnum sem þessi hagsmunasamtök hafa unnið fyrir landbúnaðinn.

Frú forseti. Þetta eru helstu atriðin sem ég vildi fara yfir. Að lokum er hérna fylgiskjal frá fjármálaráðuneytinu um kostnað. Ég hef bent á að þar komi fram að þörf sé á húsnæði fyrir þessa nýju stofnun. Það húsnæði er fyrir hendi að ég tel á Selfossi þar sem Lánasjóður landbúnaðarins er. Það kannski verður því til þess að sá kostnaður sem fjármálaráðuneytið eðli málsins samkvæmt hefur áhyggjur af verði nokkru lægri.

Það er auðvitað mjög ánægjulegt og því má fagna sem fram hefur komið í fjölmiðlum í þessari viku að sjávarútvegsráðherra hafi flutt fjölmörg störf út á land sem tilheyra undirstofnunum sjávarútvegsráðuneytisins. Þess vegna held ég að við eigum að nýta tækifærið, þann möguleika sem skapast þegar nýjar stofnanir eru settar á stofn, ef svo má að orði komast. Þá eigum við að nýta tækifærið og flytja þær út á land. Landbúnaður er í eðli sínu stundaður á landsbyggðinni. Samgöngur eru að stórbatna við Árnessýslu. Þar er framleiðslan. Þess vegna finnst mér alveg einboðið að þessi stofnun verði þar.