131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:42]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson talar um staðsetningu þessarar nýju stofnunar. Vissulega bendir hann á Landbúnaðarháskóla Íslands sem mögulegan stað fyrir þessa stofnun. Það má vel vera og eðlilegt að taka það upp í þessari umræðu. En ég vil líka benda hv. þingmanni á að Landbúnaðarháskóli Íslands er ekki bara á Hvanneyri. Landbúnaðarháskóli Íslands er einfaldlega líka á Reykjum í Ölfusi. Þar eru öll tæki og tól og hvergi er meiri fagmennska en einmitt þar til að hafa með höndum eftirlit með sáðvöru, sjúkdómum og meindýrum og plöntueftirlit sem er heilmikill kafli í þessari nýju stofnun. Því má alveg eins álíta að Landbúnaðarháskólinn gæti vistað það einmitt á Reykjum í Ölfusi. Það má vel hugsa það þannig.

Ég þarf ekkert að fara frekar yfir rökstuðning minn fyrir staðsetningu þessarar stofnunar. En rétt til að upplýsa þingheim um það að þá er það búnaðarsamband sem starfar á Suðurlandi og heitir Búnaðarsamband Suðurlands svo langsamlegast öflugast og stærst og virkasta búnaðarsambandið hér á landi að segja má að önnur búnaðarsambönd, með góðri virðingu fyrir því fólki sem þar vinnur, komist bara ekki með tærnar þar sem Búnaðarsamband Suðurlands hefur hælana.

Ég vil fyrst og fremst með þessari umræðu leggja mitt lóð á vogarskálarnar varðandi þetta frumvarp og þessa nýju stofnun og koma þessum ábendingum á framfæri. Hér er ekki um það að ræða að við séum nokkuð ósátt við frumvarpið í heild sinni sem slíkt.