131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:44]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að vekja upp úlfúð milli stjórnarliða í þessu máli. En mér finnst einhvern veginn að í ræðu hv. þingmanns hafi komið fram að hann telji ekkert endilega einboðið að þessi starfsemi eigi að vera á einum stað sem hér um ræðir, ekki endilega einboðið að það eigi að vera í sömu stofnun allt saman sem þarna er um talað. Þess vegna taldi ég ástæðu til þess að færa fram það sem ég var hér að segja.

Ég er á þeirri skoðun að það hljóti að þurfa að skoða mjög vandlega hvort aðgangur að þekkingu sem þarna nýttist kannski best ætti ekki að vera í nágrenni við Mekka landbúnaðarins í þessu landi. Ég tel að það hljóti að verða mjög til skoðunar. Það er auðvitað mikið umrót í þessum málum öllum og mikill vandi fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra að sigla þannig að öllu verði sem best fyrir komið. Það er mikið rót í sambandi við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann er nýlega orðinn til með þeim hætti sem nú er. Nú kemur þetta til viðbótar. Þess vegna er ástæða til þess að menn gái vel að sér þegar verið er að gera breytingar eins og þær sem hér er um að ræða.