131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:47]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mér sýnist við yfirlestur þessa frumvarps að hér geti verið hið besta mál á ferðinni. Að mörgu leyti minnir þetta mjög á þegar stofnanir landbúnaðarins, skólarnir á Hvanneyri og Reykjum ásamt RALA, voru sameinaðar í Landbúnaðarháskóla Íslands. Það var gert til þess að styrkja starfsemi skólanna á Hvanneyri og Reykjum. Mér sýnast öll teikn benda til að þar hafi vel til tekist eftir örlitlar misfellur kannski í upphafi eins og við er að búast því þetta er vandaverk. Mér sýnast öll þau markmið sem hæstv. ráðherra lýsti yfir í upphafi vera hin eðlilegustu og ákjósanlegt að stefnt sé að hagræðingu og samnýtingu eins og hann lýsti í inngangsræðu sinni.

Margir þingmenn hafa komið inn á staðsetningu væntanlegrar stofnunar. Það er rétt eins og bent var á umræðunni áðan, m.a. af hálfu hæstv. landbúnaðarráðherra, að starfsemi sem tilheyrir landbúnaði fer auðvitað að langmestu leyti fram úti á landi. Því er eðlilegt að koma þjónustustofnunum við landbúnaðinn fyrir þar.

Ég sagði áðan að sameining stofnananna í fyrra hefði verið gerð með það að markmiði að styrkja stöðu skólans á Hvanneyri. Ég tel að við höfum ástæðu til að haga málum þannig að starfsemi háskólans á Hólum styrkist einnig. Ég tel að hér komið sé tækifæri til þess, þ.e. að haga endurskipulagningunni þannig og koma málum þannig fyrir að það verði til stuðnings og eflingar fyrir Háskólann á Hólum.

Bent var á hér áðan að mannauður væri mikill á vissum stöðum. Það er örugglega alveg rétt en hins vegar er það svo að mannauður er færanlegur. Ég er þá ekki að tala um að færa eigi mannauð frá Hvanneyri eða Reykjum, heldur er málið að menntað fólk sækir þangað sem störfin bjóðast. Því miður hefur orðið sú breyting úti á landi að ungt fólk sem fer burt til að mennta sig á þess ekki kost að snúa aftur heim þrátt fyrir að það vilji það, vegna þess að ekki bjóðast störf fyrir menntað fólk úti á landi. Í þessu efni ber núverandi ríkisstjórn og reyndar margar á undan henni mikla ábyrgð, vegna þess að störfum hefur verið safnað saman og uppbyggingin hefur farið fram á suðvesturhorninu. Það er kominn tími til að fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar hysji upp um sig buxurnar og bjóði fram störf fyrir menntað fólk úti á landi. Hér gefst tækifæri og ég vona að það sé fyrirætlan hæstv. landbúnaðarráðherra að gera það, frú forseti.

Ég tók eftir því þegar ég las frumvarpið að talað er um að ýmsum aðilum verði sagt upp störfum af eðlilegum ástæðum þar sem verið er að leggja niður stofnanir og búa til nýja og þeim verði jafnframt boðið starf við hina nýju stofnun aftur. Ég gat hins vegar ekki séð að kveðið væri á um það í þessum lögum að héraðsdýralæknum yrðu boðin störf aftur. Ég spyr því eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson gerði áðan hvort til standi að endurskipuleggja starfsumhverfi héraðsdýralækna. Ef svo er, hvað liggur þar að baki?

Ég held að það sé líka alveg ljóst að þrátt fyrir að höfuðstöðvum væntanlegrar stofnunar verði komið fyrir á einum stað verði starfsmenn úti um allt land eins og reyndar héraðsdýralæknar eru skýrasta dæmið um. Það er síðan spurning um skipurit hvort starfseminni verður að öðru leyti einnig dreift eitthvað um landið.

Frú forseti. Hér gefst hæstv. landbúnaðarráðherra gullið tækifæri til að bæta fyrir syndir núverandi ríkisstjórnar í málefnum landsbyggðarinnar að örlitlu leyti. Ég vona svo sannarlega að hann nýti það.