131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[16:19]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram mjög yfirveguð og góð umræða um frumvarp um Landbúnaðarstofnun. Ég tel að þetta frumvarp sé mjög til bóta og tímabært að endurskipuleggja þessar litlu stofnanir sem heyra undir landbúnaðarráðuneytið.

Ég tek undir athugasemdir um það og spyr af hverju menntaður dýralæknir eigi að vera forstjóri yfir þessari stofnun. Væri ekki eðlilegra að í lagatextanum kæmi fram að það skuli vera maður með háskólapróf og reynslu af stjórnun? Það hefur oft gefist illa að ákveða fyrir fram hverjir verði forstjórar í svona stofnunum. Við höfum breytt slíku áður, a.m.k. þegar það hefur komið fyrir landbúnaðarnefnd.

Hér er greint frá því hvert verði verkefni stofnunarinnar. Ég er ekki sammála hv. þm. Kjartani Ólafssyni að því leyti að mér finnst eðlilegt að þau stjórnsýsluverkefni sem Bændasamtök Íslands hafa sinnt séu færð frá samtökunum. Það getur ekki samrýmst stjórnsýslulögum að hagsmunasamtök hafi slíkt eftirlit innan sinna vébanda. Þó að allt hafi gengið allt vel og árekstralaust þá hlýtur það að orka tvímælis.

Það hefur komið fram að það verða ekki mörg stöðugildi í þessari stofnun. Starfsmenn hafa aðstöðu á mörgum stöðum og ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá mörgum, að það þarf að passa upp á að stöðugildi sem eru úti á landi verði þar áfram og það gerist ekki, eins og gagnrýnt hefur verið, sem gerðist með hreindýraeftirlitið á Austurlandi. Þar gáfust menn upp, eftirlitið fór fyrst til Akureyrar og síðan til Reykjavíkur. Sá sem var með það eftirlit gafst upp á því starfi.

Sameiningin gefur að sjálfsögðu kost á hagræðingu til lengri tíma litið. Við höfum nokkra reynslu af því í landbúnaðarnefnd, að leggja niður stofnanir og búa til eina stofnun eins og gert var með Landbúnaðarháskóla Íslands, sem er saman settur af RALA, Garðyrkjuskólanum á Reykjum og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Þessi háskóli er starfræktur á þremur stöðum og ég veit ekki til annars en að þar hafi allt gengið vel þótt alltaf fylgi vaxtarverkir því þegar stofnanir eru lagðar niður og nýjum komið á laggirnar.

Það er athyglisvert að með 5. gr. frumvarpsins er verið að fella úr gildi lög sem eru æðigömul, nr. 78 frá 1935, þ.e. um einkarétt ríkisstjórnarinnar til að flytja trjáplöntur til landsins og um eftirlit með innflutningi trjáfræs. Eftir að þetta frumvarp hefur verið samþykkt munu aðrir geta flutt inn trjáplöntur og fengið leyfi til þess frá hinni nýju Landbúnaðarstofnun.

Í dag hefur nokkuð verið rætt um að ríkisstjórnin hafi staðið sig illa í að koma störfum út á land. Það var brotið í blað í fyrradag þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra tilkynnti að hann mundi færa út starfsstöðvar á fimm staði á landinu og byrjaði strax í Vestmannaeyjum, á Höfn á Hornafirði, Stykkishólmi, Akureyri og Grindavík. Allt skiptir þetta miklu máli. Ég ætla ekki að blanda mér í staðsetningu stofnunarinnar, hvar hún eigi að vera. Það hlýtur margt að koma til álita. Að sjálfsögðu mun ráðherra huga að því að hafa þessa stofnun úti á landsbyggðinni. Það er tækifæri til þess þegar nýrri stofnun er komið fót að staðsetja hana úti á landi.

Samgönguráðherra hefur líka staðið sig vel í að flytja störf út á land. Ég tel að hann hafi flutt um 100 störf út á land og eins hefur byggðamálaráðherra unnið að ágætum verkefnum fyrir landsbyggðina. Ég tel því að ríkisstjórnin sé vel meðvituð um að flytja störf út á land. Þó að oft hafi það gengið brösuglega þá er það samt reynt.

Ég tel að það skipti miklu máli að þingmenn landsbyggðarinnar tali vel um landsbyggðina. Ég er nýkomin af fundi Landssamtaka sauðfjárbænda þar sem var mikið af ungu fólki, bæði konum og körlum. Það var bjartsýnt á framtíð sína og vinnur að sínum málum. Það var mjög ánægjulegt að sjá þar svo margt ungt fólk og kröftugt. Það er ákveðin endurnýjun í landbúnaðinum og margt gott að gerast.

Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir að koma fram með þetta frumvarp og ég tel það til mikilla heilla.