131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[16:35]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er alltaf gaman að koma í umræður þegar stofna á nýja opinbera stofnun. Það er satt best að segja nokkuð merkilegt hvað hæstv. ríkisstjórn hefur þrátt fyrir allt verið dugleg við að búa til ýmsar opinberar stofnanir. Ég veit að það gleður ýmsa eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sem ætíð er með hýrri há í salnum þegar við ræðum um nýjar opinberar stofnanir.

Það er á sínum stað og ég ætla síður en svo að fara að leggjast gegn því að tekið verði til rækilegrar skoðunar að koma á fót formlegri stjórnsýslustofnun á vettvangi landbúnaðarins. Það má að mörgu leyti taka undir það að þar hafa verkefni verið býsna dreifð og á tvist og bast og litlar hálfgerðar einyrkjastarfsstöðvar verið að sinna þessum hlutum undir hatti landbúnaðarráðuneytisins, eins og kjötmatsformaður, aðfangaeftirlit, plöntueftirlit o.s.frv. En það er ekkert sem segir að þeim verkefnum hafi ekki verið vel fyrir komið og sinnt með praktískum hætti eftir sem áður. Það vill oft fara svo að við skipulagsbreytingar drukkna áformin um hagræðingu, sem menn sjá fyrir sér í sameiningu yfirstjórnar, í því að slíkar stofnanir hafa oft tilhneigingu til þess að fara að lifa svolítið eigin lífi og tútna dálítið út þegar þær verða til.

Það væri t.d. dálítið fróðlegt að fara yfir það hvernig yfirdýralæknisembættið hefur þróast frá því að sá mæti maður Páll Agnar Pálsson sat í því einn. Þá var ekki aldeilis yfirbygging á ferðum og hann skilaði af sér þegar hann lét af embætti einni gamalli ritvél og hafði ekki mulið undir sig eða embættið á þeim langa og farsæla tíma sem hann var þar. En auðvitað hafa verkefnin breyst og aukist og alþjóðlegt samstarf og fleira hefur komið til sögunnar sem á að sjálfsögðu sinn þátt í því að yfirdýralæknisembættið er orðið að heilmiklu embætti núna.

Ég man líka t.d. umræður sem urðu á þingi, svo að maður láti það eftir sér að skeiða pínulítið um víðan völl, þegar Fiskistofa varð til. Menn stigu hér á stokk og strengdu þess heit að það skyldi aldrei og mætti aldrei verða að Fiskistofa yrði að bákni sem færi að sanka að sér mannskap og auka veltu sína í rekstri. En hinir sömu menn eins og fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Matthías Bjarnason, urðu að horfast í augu við það fáum árum seinna að þetta hafði orðið að stofnun. Þannig vill oft fara. En auðvitað verða menn líka að hafa í huga að skynsamlega og ráðdeildarsamlega sé að því staðið að byggja slíkt upp.

Svo ég komi að ýmsum atriðum sem ég ætla aðeins að reifa hef ég í fyrsta lagi alltaf vissar efasemdir þegar stjórnsýsluþáttum, beinni framlengingu framkvæmdarvaldsins sem varðar framkvæmd, stefnu og verkefni sem eru framkvæmdarlegs eðlis og hrein stjórnsýsluverkefni er blandað saman við eftirlit. Að mörgu leyti er heppilegast að sameina eftirlitsþætti og hafa þá sem sjálfstæðasta og vista þá með einhverjum hætti sjálfstætt í kerfinu þannig að þeir séu ekki í graut innan um framkvæmdarvaldsstarfsemina. Það býður upp á hættur sem ég held að þurfi ekki að fara yfir og er engin meinbægni að minna á og rifja upp. Það er almennt viðurkennt að þar eru á ferðinni þættir sem æskilegt er að halda aðskildum. Það er það fyrsta sem mér finnst þurfa að hugleiða og skoða hvort það er endilega sjálfgefið að hlutar þess starfs sem fara á að sameina í einni stofnun, sem eru hreint eftirlit, þar á meðal eðli málsins samkvæmt að ýmsu leyti eftirlit með stjórnsýslunni með því hvernig framkvæmdin er að takast eiga að vera í sömu stofnun og alfarið undir sama stjórnkerfi og stjórnsýsluþættirnir.

Í öðru lagi staldra ég aðeins við hæfniskröfur forstjóra hinnar nýju stofnunar sem vekja nokkra athygli mína. Ég hef verið í þeim hópi á þingi sem hefur verið frekar talsmaður þess en hitt að gerðar séu vel skilgreindar og vel rökstuddar efnislegar hæfniskröfur til yfirmanna. Ég held að það sé yfirleitt til bóta og dragi úr tortryggni þegar verið er að ráða í faglegar yfirmannastöður að hinar faglegu hæfniskröfur séu til staðar og nokkuð skýrar. Þessu hefur oft verið andmælt og ég man ekki betur en einmitt ýmsir af ráðherrum í núverandi ríkisstjórn hafi fundið á köflum slíkum hugmyndum allt til foráttu. Ég man eftir slagsmálum í þingnefndum þar sem verið var að taka út hæfniskröfur sem gerðar höfðu verið, jafnvel tiltölulega almenns eðlis eins og þær að menn skyldu hafa háskólapróf á viðkomandi fagsviði. Þá vildu menn það ekki og töldu að það væri í mesta lagi nóg að menn hefðu einhverja háskólamenntun.

Hér kemur annað úr ranni hæstv. landbúnaðarráðherra, að ekki einasta skuli maðurinn vera menntaður og hafa stjórnunarreynslu heldur skuli hann vera dýralæknir og með æðri prófgráðu á því sviði. Hann skal veskú vera spesíalist í dýralækningum, doktor helst í þeim fræðum. Þá má velta því fyrir sér: Hefði ekki verið einfaldara að láta bara standa þarna: Forstjóri Landbúnaðarstofnunar skal heita Halldór Runólfsson, a.m.k. fyrst um sinn? Ég velti því hreinlega fyrir mér. Og væri vel að merkja prýðilega skipað, en það á ekki að klæða þetta í svona búning.

Til lengri tíma litið verður auðvitað, svo að maður tali í alvöru, að hafa það á hreinu: Vilja menn hafa fagkröfurnar algerlega þarna? Á þetta að vera sérmenntaður maður á sviði dýralækninga? Það eru ærin rök fyrir því. Það er auðvitað ljóst að stór hluti af starfseminni, a.m.k. fyrst um sinn, kemur frá yfirdýralæknisembættinu, það er geysilega mikilvægt og miðlægt í starfseminni. En það er ekki endilega þar með sagt að t.d. hámenntaður maður á sviði plöntufræða eða umhverfisfræða landbúnaðar sem hefði mikla stjórnunarreynslu og væri prýðilega menntaður fagmaður á því sviði, en af einhverju öðru sviði undir stofnuninni, gæti ekki verið jafngóður forstöðumaður þegar að því kæmi að skipa í það embætti eins og kannski einhver nýútskrifaður doktor sem hefði slampast í yfirdýralæknisembættið eða væri það sem héti væntanlega skrifstofustjóri dýralæknamála í stofnuninni, héraðsdýralæknir eða eitthvað því um líkt.

Ég held að öllu gamni slepptu að athuga eigi hvort það sé endilega sjálfgefið að hafa þetta svona klæðskerasaumað þó svo að það sé í hugum einhverra að Halldór Runólfsson gegni þessu fyrst um sinn eftir að stofnunin kemst á legg og skal ég síðastur manna fara að lasta það, ekki má neinn skilja orð mín þannig.

Mér finnst líka, virðulegur forseti, að það sé nú ekki málæðið í frumvarpinu þegar kemur að skipulagi hinnar nýju stofnunar. Ég hef satt best að segja sjaldan séð einfaldara smíðaverk um slíkt en 4. gr. frumvarpsins, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Landbúnaðarstofnun skiptist í skrifstofur eftir viðfangsefnum og skal skrifstofustjóri vera yfir hverri skrifstofu.“ — Þarna kemur orðið skrifstofa þrisvar sinnum fyrir í sömu setningunni. — „Skrifstofustjórar skulu hafa háskólamenntun og sérþekkingu á viðkomandi sviði. Einn skrifstofustjóranna er staðgengill forstjóra. Forstjóri ræður jafnframt annað starfsfólk nema annað sé tekið fram í lögum“ — sem er sennilega selvfølgelighed. — „Landbúnaðarráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skipulag og starfsemi stofnunarinnar að fengnum tillögum forstjóra.“

Meira er ekki um þetta sagt. Þetta er nú frekar einfalt svona. Ef við bærum þetta saman við löggjöf um Umhverfisstofnun eða aðrar ýmsar stjórnsýslustofnanir held ég að mönnum hafi þótt þar ástæða til að kveða svolítið skýrar að orði.

Hér á sem sagt að láta herra landbúnaðarráðherrann hafa í raun fullkomlega frjálsar hendur og algert reglugerðarvald til þess að stússast með þetta bara eins og honum sýnist, að vísu að fengnum tillögum forstjórans. Það er svo sem allt í lagi. En kannski er það vegna þess að menn eru ekki búnir að ganga frá því hvernig þetta á að vera. Þetta hefði nú einhvern tíma talist dálítið rausnarlegt framsal af hálfu löggjafans á reglugerðarsetningarvaldi, t.d. varðandi staðsetningu. Væntanlega er það eitt af því sem 4. gr. galopnar fyrir ráðherrann að hann geti nú bara hrossast með þetta eins og hann vill og haft sumt af þessu austur undir Þjórsá og annað niður undir Eyrarbakka eða hvernig sem hann vill nú bara hafa þetta. Þá er spurningin hvort Alþingi vilji virkilega hafa það svo.

Ég spyr t.d.: Væri galið að Landbúnaðarstofnun yrði á Hvanneyri og efldi Landbúnaðarháskólann okkar og það setur sem þar er í ánægjulegri uppbyggingu? Búið er að ákveða að færa Rannsóknastofnun landbúnaðarins þangað eða hún er í áföngum á leiðinni þangað o.s.frv. Ég held að það séu ýmis sjónarmið fyrir því að dreifa ekki kröftunum. Ég gæti flutt um það langar og glæsilegar ræður hversu prýðilegt væri að hafa Landbúnaðarstofnun í Norðausturkjördæmi og ekki veitti mönnum nú af að fá eitthvað félegt þar miðað við ýmislegt annað sem í boði er þessa dagana. (Gripið fram í.)

Ég ætla þó ekki að vera ofan í einhverjum músarholusjónarmiðum í þessum efnum og hefja mig upp fyrir það að horfa bara á mitt kjördæmi. Ég held að ýmis rök séu fyrir því að efla þessa stjórnsýslu- og fræða- og rannsóknarmiðstöð sem er í uppbyggingu í Borgarfirði með því að Landbúnaðarstofnun í áföngum t.d. og í gegnum ákveðna tímasetta áætlun flyttist að Hvanneyri og þessi starfsemi efldist upp þar. Það hefur líka þann kost, þökk sé Hvalfjarðargöngunum m.a., að miklu minni röskun verður á högum þess hluta starfseminnar sem er á höfuðborgarsvæðinu sem stendur. Hún getur þá þess vegna flust í áföngum og starfsfólk haldið störfum sínum jafnvel árum saman. Það er enginn neyðarkostur samanber það hversu margir vinna nú þegar öðrum megin Hvalfjarðarganganna og búa hinum megin. Og nú er búið að lækka tollinn þannig að þetta er orðið ódýrara og betra.

Ég vil líka setja fyrirvara við það að þetta sé nú haft svo algerlega galopið. Er það þannig sem Alþingi vill láta þessa hluti frá sér að það hangi svona bara einhvers staðar í lausu lofti hvar þessi stofnun verði og það sé þá sett í hendurnar á ráðherranum einum að ráðskast með það, með fullri virðingu fyrir honum? Er hæstv. ráðherranum endilega greiði gerður með því að sitja við borð og semja við sjálfan sig um það mál, halda eins manns fundi um það mál? (Gripið fram í.) Það yrðu kannski góðir fundir. Það verða ekki harðar deilur. Þó veit maður það aldrei. Menn geta náttúrlega átt í innri baráttu um svona mál. Til dæmis gæti hæstv. landbúnaðarráðherra átt það til að lenda í mikilli togstreitu um það, þegar hann er að semja um þetta við sjálfan sig, hvort þetta eigi að vera á Hvanneyri eða einhvers staðar á Suðurlandsundirlendinu. Það er alveg hugsanlegur möguleiki í stöðunni að þá mundu bresta á harðar deilur í innbúi hæstv. landbúnaðarráðherra, svona í innvirkinu á honum, um þessa hluti.

Ég tel að Alþingi ætti bara að taka á sig rögg og taka af skarið í þessum efnum. Það hefur verið (Gripið fram í.) venjan fram á síðustu ár þangað til hæstv. núverandi ríkisstjórn að vísu með ótrúlegum hætti tók inn lagaheimildir til þess að ákveða sjálf, ef ég man rétt, almenna heimild um hvar ríkisstofnanir séu niður komnar og vistaðar sem er auðvitað algjört fráhvarf frá fyrri hefðum og venjum þar sem Alþingi tók ævinlega af skarið með það og setti stofnanirnar niður og gekk frá því hvar þær væru. Auðvitað er það langbesta aðferðin. Þá er það hafið yfir allan vafa og deilur og þá er ábyrgðin hér á Alþingi sem jafnframt veitir féð og mótar stefnuna með sinni lagasetningu. Annað þótti fráleitt á þeirri tíð sem ég var í ríkisstjórn og var nú reyndar að flytja til opinberar stofnanir út á land meðal annars. En Alþingi byrjaði á því að taka af skarið með það. Það fyrsta sem var gert t.d. þegar skógræktin var flutt austur á Hérað var að leggja fyrir Alþingi frumvarp um aðsetrið og láta Alþingi taka af skarið um það. Það var stuðningur við það á löggjafarsamkomunni að gera slíkt. (Gripið fram í.) Ég man ekki hvort það þurfti lagabreytingu þegar Siglingamálastofnun var flutt. Það var nú að vísu ekki langur spotti sem hún fór. Hún var úti á Seltjarnarnesi eða hér í Vesturbænum og fór yfir í Kópavog. En hún fór þó yfir kjördæmamörk og hreppamörk þannig að ég gat haft hana með þegar ég taldi upp fjölda þeirra stofnana sem ég flutti út á land, að vísu ekki langt sumar. (Gripið fram í.) Nei, hún fór ekki á Suðurlandsundirlendið.

Auðvitað mætti ræða hér ýmislegt fleira, frú forseti, um þetta gagnmerka mál. En ég held að aðalatriðið sé að það fái vandaða og faglega skoðun í hv. landbúnaðarnefnd. Úr því að það er nú ekki flóknara í smíði en þetta sem kemur frá hæstv. landbúnaðarráðherra og svona margir endar lausir og óhnýttir þá verða náttúrlega bara aðrir að taka að sér verkið að fylla inn í þennan ramma. Mér finnst þetta satt best að segja óskaplega léttbyggt hús sem hæstv. landbúnaðarráðherra er með í þessu frumvarpi og að full ástæða sé til þess að fylla þar inn í ýmsar eyður og taka af skarið og ákveða vissa hluti. Ef mönnum vinnst tími til þess fyrir vorið þá er það gott. En kannski er hyggilegt að skoða þetta svolítið betur enda er engin bráðavá væntanlega fyrir dyrum.

Að lokum vil ég nefna eitt atriði sem varðar stöðu starfsmanna sem þarna eru. Það er svolítið flókin uppsetning á þessu í frumvarpinu. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju það er svona gert að 5. gr., gildistökugreinin, er mílulöng og þar koma allt í einu aftan við hina hefðbundnu gildistökugrein sem er nú einfaldlega þannig að þetta skuli öðlast gildi 1. janúar 2006 — ég hélt nú að það væri venjan að hafa ekki önnur efnisákvæði í gildistökugreinum yfirleitt nema gildistökuna — en svo kemur eiginlega svona hálfgert ákvæði til bráðabirgða í þessari gildistökugrein. En það er ekki nóg því að þar til viðbótar er ákvæði til bráðabirgða I. Þar loksins kemur það að störf hjá aðfangaeftirlitinu, yfirdýralækni, veiðimálastjóra, kjötmatsformanni og plöntueftirliti Landbúnaðarháskóla Íslands skuli lögð og starfsfólkinu boðin sambærileg störf hjá Landbúnaðarstofnun

Þetta skil ég og les nú þannig að allt sé upp talið, að öllum starfsmönnum, þar með talið héraðsdýralæknum eða hvað? — þetta er væntanlega þannig hugsað að þeir teljist starfsmenn yfirdýralæknisembættisins í skilningi þessara ákvæða — skuli þá boðin störf hjá Landbúnaðarstofnun. En það er talað um störf, ekki sömu störf eða sambærileg störf, og í 5. gr., gildistökugreininni, er ráðningarsambandið rofið hjá öllum þessum aðilum.

Þar segir einfaldlega, með leyfi forseta:

„Eins fellur niður við gildistöku laga þessara skipun landbúnaðarráðherra í störf ...“

Svo er þar talið upp sem sagt, t.d. héraðsdýralækna og dýralæknis fisksjúkdóma og fer um réttindi og skyldur þeirra samkvæmt lögum o.s.frv.“

Ég hef nú séð þetta skýrar sett upp hvað varðar stöðu starfsmannanna. Ég held að það hefði verið langeðlilegast að taka af skarið í einni málsgrein um að þetta tæki til allra starfsmanna sem lögin varða, bara með einni einfaldri málsgrein um að þeim skyldu öllum boðin sambærileg störf og að ákvæði laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna giltu að fullu.

Sem betur fer er nú sá ósiður aflagður sem tíðkaðist lengi í breytingabrölti af þessu tagi, sérstaklega þegar einkavæðingin var að stíga hér sín fyrstu skref, að menn voru með vísvitandi tilraunir til þess að reyna að hafa rétt af mönnum og reyndu að taka úr sambandi tilteknar lagagreinar í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Mig minnir að sérstaklega hafi 7. gr. verið umdeild þar. Þetta var nú allt saman rekið ofan í kokið á mönnum aftur með málaferlum meðal annars. Nú eru menn hættir þessu. En enn vefst fyrir mönnum að setja þetta einfalda atriði upp með skýrum og afdráttarlausum hætti, að það standi ekki til að hafa nein réttindi af neinum við svona breytingu og að menn skuli eiga kost á sambærilegum störfum í hinu nýja skipulagi. Það þarf að vera skýrara en hér er frá því gengið.