131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[17:02]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér ræðum við frumvarp um Landbúnaðarstofnun og þá vill svo sérkennilega til að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson tekur til máls og fer að tjá sig um staðsetningu hinnar nýju stofnunar, Landbúnaðarstofnunar, og finnst eðlilegt og sjálfsagt að sú stofnun verði staðsett í heimabyggð sinni, sem er Hvanneyri. Það hefur verið rætt í þessari umræðu að það komi vissulega til greina. Hann bætir því jafnframt við í ræðu sinni að eðlilegt væri að flytja landbúnaðarráðuneytið eitt og sér á Hvanneyri líka, í heimabyggð sína.

Það er sérkennilegt af því að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson er kjörinn í kjördæmi sem heitir Suðurkjördæmi. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi nokkra hugmynd um hversu stórt hlutfall af heildarlandbúnaðarframleiðslu á Íslandi er framleitt í Suðurkjördæmi.