131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[17:04]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði ekki að landbúnaðarráðuneytið ætti að fara á Hvanneyri, ég varpaði bara fram þeirri hugmynd. Þar fyrir utan þótti mér eðlilegt að varpa fram þeirri hugmynd hvort ekki væri rétt að Landbúnaðarstofnun færi upp á Hvanneyri einmitt vegna þess að á Hvanneyri er Landbúnaðarháskóli Íslands og þar er nú þegar komið umhverfi fyrir rannsóknir og þar er fyrir hendi áratugalöng, gott ef ekki hundrað ára löng hefð fyrir landbúnaðarrannsóknum. Þess vegna þætti mér ekkert óeðlilegt að velta þeirri hugmynd fyrir sér hvort ekki væri rétt að fara með stofnunina þangað.

Eins og ég sagði áðan í ræðu minni að þó að ég sé kjörinn þingmaður Suðurkjördæmis álít ég það ekki endilega vera skyldu mína að stunda endalaust kjördæmapot fyrir hönd þess kjördæmis. Ég er líka þingmaður Íslendinga. Hv. þm. Kjartan Ólafsson verður að átta sig á því að við erum ekki bara kosnir á þing til að vera þingmenn Sunnlendinga. Við erum þingmenn á þjóðþingi Íslands. Það er undarlegt að menn skuli ekki átta sig á svo einfaldri staðreynd. Við hljótum ávallt í umræðum okkar og hugsanlega ákvarðanatökum að velta því fyrir okkur hvað kemur best út fyrir þjóðina sem heild. Það er það sem skiptir máli.