131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[17:16]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var mjög áhugaverður punktur sem kom fram hjá hæstv. landbúnaðarráðherra, að ráðuneytin yrðu jafnvel staðsett í heimabyggð viðkomandi ráðherra. Það mundi spara helling og það væri mögulegt með nútímatækni.

En ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra því þótt ég hafi ekki setið í salnum hef ég fylgst grannt með umræðunni. Mér finnst ekki hafa komið nægilega skýrt fram hvernig stendur á því að menn sameina svona rekstur án þess að af verði sparnaður. Yfirleitt eru fyrirtæki sameinuðu til að ná fram sparnaði í rekstri, einhverjum samlegðaráhrifum. Hvernig gerist það að þetta á ekki að spara heldur eigi þetta að kosta? Hvers lags hugsun er það eiginlega?