131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Útflutningur hrossa.

727. mál
[17:30]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Með reglulegu millibili, mjög reglulegu, koma fram frumvörp á Alþingi um hross. Þetta kemur fram í fjárlögum. Þar er verið að dæla út mörg hundruð milljónum í hross. Ég vil kalla þetta hrossakaup og finnst undarlegt dekur löggjafans eða stjórnvalda við eigendur hrossa. Hér hafa meira að segja verið sett lög um útflutning hrossa. Maður spyr sig: Af hverju ekki lög um útflutning katta eða hunda, kúa eða kinda? (Gripið fram í: Þau eru ekki flutt út.) Þau er ekki flutt út, segir hv. þingmaður. Það skyldi nú ekki vera að þurfi að setja lög um það svo þau verði flutt út?

Það sem er undarlegt í þessu er að þau lög um útflutning hrossa, sem ég var að líta á og eru níu greinar, fjalla annars vegar um gæðastýringu eða gæðaeftirlit með atvinnugreininni sem atvinnugreinin gæti að sjálfsögðu sett upp sjálf. Talað er um örmerkt hross og frostmerkt. Það gæti greinin gert sjálf ef menn vilja fá gott verð erlendis ef þeir flytja hrossin út. Talað er um hestavegabréf. Þau mundu bara fylgja eins og farmbréf með annarri vöru. Talað er um að greiða 500 kr. í stofnverndarsjóð. Þarna er dulbúin skattlagning líka inni í þessu. Ég get nú ekki séð að nokkurn einasta mann muni neitt um þennan fimm hundruð kall og kostar sennilega meira að innheimta hann heldur en hann gefur. Þetta eru sem sagt gæðaeftirlitskröfur sem greinin gæti sjálf sett upp.

Svo eru náttúrlega dýraverndarsjónarmið um að undir fjögurra mánaða aldri megi ekki flytja út hross. Ég geri ráð fyrir að það falli undir dýravernd. Fylfullar hryssur má ekki senda úr landi ef þær eru gengnar meira en sjö mánuði með. Þetta mundi falla undir dýravernd. Einnig flutningsfar fyrir hross svo og öll aðstaða, svo sem rými og loftræsting o.s.frv. Þetta fellur allt saman undir dýravernd. Hvað eru menn með lög sérstaklega fyrir hross?

Í lögum um dýravernd sem ég leit líka á, nr. 15/1994, er fjallað um að umhverfisráðuneytið eigi að hafa eftirlit með dýravernd og setja um það reglugerðir. Það gæti svo gott sem sett reglugerðir sem eru nákvæmlega eins og þessi lög um aðbúnað hrossa þegar þau eru flutt út, aldur þeirra og hvort þau séu fylfull eða ekki.

Ég skil ekki að setja þurfi allt í lög, sérlög um útflutning hrossa.