131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[17:37]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á búnaðarlögum, nr. 70/1998, með síðari breytingum, á þskj. 1083 og er þetta 725. mál þessa löggjafarþings.

Með frumvarpinu er verið að leggja til að sú breyting verði gerð á búnaðarlögum, nr. 70/1998, að felld verði úr gildi heimild búnaðarsambanda til þess að innheimta sérstakt gjald hjá mjólkurframleiðendum af allri innveginni mjólk í afurðastöð vegna sæðinga mjólkurkúa. Gjaldið er nú 1,7% af afurðastöðvarverði mjólkur. Í nýjum samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu sem tekur gildi 1. september 2005 er gert ráð fyrir því að ákveðnum fjármunum sé ráðstafað til kynbóta- og þróunarverkefna í nautgriparækt. Þá er jafnframt talið eðlilegt að þeir sem nýta sér þjónustu búnaðarsambanda greiði í auknum mæli beint fyrir veitta þjónustu.

Þetta er ekki langt frumvarp eða flókið og auðskilið.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og landbúnaðarnefndar.