131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[17:41]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað þessa stóru spurningu varðar undir umræðu um þetta frumvarp get ég sagt hv. þingmanni og þingheimi mína skoðun og það sem ég hef skoðað í málinu.

Ég er þeirrar skoðunar að hver og einn eigi rétt á því að meta hagsmuni sína eins og þeir standa hverju sinni og eru bændur engin undantekning í þeim efnum. Frelsi til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa er stjórnarskrárvarinn réttur þegna þessa lands og verður sá réttur einungis takmarkaður með lögum ef almannahagsmunir krefjast þess. Búvörulög fela ekki í sér slíka takmörkun. Því ríkir að mínu viti ekkert bann við framleiðslu á ostum utan greiðslumarkskerfis laganna. Það virðist vera mat forsvarsmanna Mjólku að framleiðsla fyrirtækisins eigi sér rekstrargrundvöll við þessar aðstæður og þeir vilja starfa utan við búvörusamninginn og beingreiðslukerfið. Því er það svo í mínum huga að bændurnir í Eyjum í Kjós eiga þetta val og eru að mínu mati frjálsir að því að fara þessa leið, enda standi þeir í framtíðinni utan við búvörusamninga og hið opinbera beingreiðslukerfi.

Þetta er leið sem þeir hafa valið og þeir hafa að mínu mati fullan rétt til þess að velja sér þá leið og vera utan búvörusamningsins.