131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[17:59]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, bændur hafa haft þetta val og þess vegna á að ráðast í breytingu á gjaldinu. Það verður greitt beint fyrir sæðinguna, trúlegast meira en hefur verið gert. En bændur hafa borgað fyrir hana aukalega. Þrátt fyrir að þeir borgi 1,7% af afurðastöðvarverði mjólkur hefur hver sæðing kostað heilmikla peninga. Ef sæðing misheppnast þarf að sæða aftur og jafnvel í þriðja sinn þangað til kýrin heldur. Allt kostar þetta heilmikla peninga.

Ég á mjög erfitt með að sjá fyrir mér að hægt væri að reka margar sæðingarstöðvar sem mundu bjóða upp á sæði í kýr vegna þess að stofninn okkar, eins og margoft hefur komið fram, er ekki mjög fjölbreyttur og það eru ekki mjög margir gripir í heildina tekið. Það eru mjög fáir gripir í stofninum sem við höfum.

Á kynbótastöðvunum, t.d. að Stóra-Ármóti í Hraungerðishreppi, fer fram mjög gott starf, kynbótastarf og mikið þróunarstarf varðandi heyverkun fyrir kýr til að nýta fóðrið sem mest og best. Það væri gaman að bjóða hv. þm. Pétri H. Blöndal með í heimsókn að Stóra-Ármóti.