131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[18:12]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sérfræðingur í þeim lögum sem um þetta allt saman gilda. Ég hef hins vegar þá tilfinningu að þeir bændur sem ekki eiga greiðslumark eigi samkvæmt búvörulögum fullan rétt á greiðslunum sem eru tengdar gripunum sem þeir eiga, kjötframleiðendur og mjólkurframleiðendur. (Gripið fram í.) Þannig mundu þeir eigendur kúa sem hér um ræðir hafa fullan rétt til að fá styrkinn ef þeir kysu svo. En ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það.

Það var að birtast skýrsla frá Hagfræðistofnun háskólans um landbúnaðarmálin. Mér finnst líklegt að hæstv. ríkisstjórn taki þá skýrslu og skoði vandlega því þar er bent á leiðir sem ég hef talið fram að þessu að væri skynsamlegt að skoða vel, um það hvernig bæri að bera sig að við stuðning við landbúnað á Íslandi inn í framtíðina sem gæti samrýmst þeim alþjóðasamningum sem í stefnir. Ég vonaðist til þess að menn hefðu þetta svolítið í huga í fyrra þegar menn hröpuðu að því að klára þann búvörusamning sem þá var gerður. Það var ekki gert, en ég hvet til þess að sest verði vandlega yfir skýrsluna og menn skoði betur hvernig þeir ætla að bregðast við nýjum tímum. Í búvörusamningnum sem gerður var í fyrra eru reyndar ákvæði um endurskoðun ef á þurfi að halda vegna breyttra samninga á alþjóðavísu.