131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[18:16]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get nú ekki verið spámaður um kvótaverð í landbúnaði. Hins vegar hafa fréttir bent til þess að það sé orðið býsna hátt og sé það rétt sem fram hefur komið að 12–15 ár taki að ná því til baka í framleiðslu þá hljóta menn að vera komnir á undarlegt spor vegna þess að svo langir eru ekki þessir landbúnaðarsamningar sem gerðir hafa verið. Svo virðist því vera að menn séu að taka býsna mikla áhættu með þessum kaupum, áhættu sem felst í því að einhvers konar breytingar geti orðið á stuðningnum við landbúnaðinn, hann fari að minnka eða dreifast öðruvísi.

Ég tek undir að mikilvægt var að breyta ábúðarlögunum. Það var ágætur hlutur og ég var ánægður með það.

Það er rétt að mikill stuðningur var við búvörusamninginn í fyrra. Ég undraðist það mjög að menn skyldu vera svo fljótir að afgreiða þann samning og fannst að þar hefðu menn átt að fara sér hægar og skoða þau mál betur og reyna að komast nær því að sjá hver framtíðin yrði áður en frá þeim málum yrði gengið. En ég er ekki hissa á því að bændur hafi fylgt því eftir og viljað ná þeim samningi í gegn. Það skil ég mjög vel vegna þess að í búvörusamningnum er trygging fyrir þeim stuðningi sem þar er tilgreindur. Ég geri ráð fyrir því að mönnum þyki sú trygging vera nokkuð góð og að hún muni í raun færa þeim þennan stuðning allan jafnvel þótt það þurfi að breyta honum með einhverjum hætti vegna alþjóðasamninga. En þá situr líka ríkissjóður uppi með það að þurfa að borga stærri skerf en hefði kannski annars verið gert.